5 Október 2015 12:45

Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 27. september – 3. október.

Sunnudaginn 27. september kl. 17.32 var bifreið ekið með ásetningi á kyrrstæða bifreið á bifreiðastæði við Árbæjarlaug. Ökumaður kyrrstæðu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 29. september. Kl. 12.18 varð árekstur tveggja bifreiða á gatnamótum Grensásvegar og Skeifunnar/Fellsmúla. Annarri bifreiðinni var ekið norður Grensásveg og hinni vestur Skeifuna áleiðis áfram vestur Fellsmúla. Ökumenn og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 23.46 missti ökumaður skyndilega stjórn á bifreið er hann var að aka austur Suðurlandsveg með þeim afleiðingum að bifreiðin snerist, fór upp á umferðareyju og endaði utan vegar öndvert við veginn nálægt gatnamótum Hafravatnsvegar. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 30. september. Kl. 8.06 var gangandi vegfarandi fyrir bifreið við gatnamót Grensásvegar og Fellsmúla. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.29 varð aftanákeyrsla á Geirsgötu við Lækjargötu. Ökumaður aftari bifreiðarinnar ætlaði sjálfur að leita aðhlynningar á slysadeild.

Fimmtudaginn 1. október kl. 20.34 var ökumaður þröngvaður út af veginum í hringtorgi á Vífilsstaðavegi ofan Reykjanesbrautar af óþolinmóðum ökumanni með þeim afleiðingum að bifreiðin rakst þar á grindverk. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni.