Frá vettvangi á Hringbraut.
27 Október 2015 12:27

Í síðustu viku slösuðust sjö vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 18. – 24. október.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 18. október. Kl. 5.33 var bifreið ekið á vegrið á milli akbrauta Hafnarfjarðarvegar á móts við Hamraborg. Ökumaðurinn var grunaður um ölvun við akstur. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.46 var bifreið ekið austur Miklubraut. Á móts við Skeifuna missti ökumaðurinn vald á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún kastaðist upp á umferðareyju þar sem hún lenti á umferðargirðingu á milli akbraut, síðan á umferðarmerki og stöðvaðst loks á bifreið, sem ekið var í gagnstæða átt. Ökumenn beggja bifreiðanna voru færðir á slysadeild, auk farþega í framsæti annarrar þeirrar.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 21. október. Um kl. 9 varð drengur fyrir bifreið á Hlíðardalsvegi við Fífuhvammsveg. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 12.26 var bifreið ekið austur Hringbraut á hægri akrein. Er hún nálgaðist gatnamót Njarðargötu lenti hún utan í hlið kyrrstæðrar bifreiðar á vinstri akrein og síðan aftan á kyrrstæða flutningabifreið við gatnamótin. Ökumaður fyrstnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 23. október kl. 16.58 varð barn á reiðhjóli fyrir bifreið á gangbraut á Ægissíðu við Hofsvallagötu. Það var flutt á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfarenda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni.

Frá vettvangi á Hringbraut.

Frá vettvangi á Hringbraut.