Frá vettvangi á Reykjanesbraut í Garðabæ.
2 Nóvember 2015 16:08

Í síðustu viku slösuðust þrettán vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 25. – 31. október.

Mánudaginn 26. október kl. 15.06 varð hjólreiðmaður fyrir bifreið við hringtorg Bíldshöfða/Sævarhöfða. Hann hafði hjólað á gangstétt til vesturs með Bíldshöfða og ætlað yfir Sævarhöfða þegar bifreið var ekið suður Sævarhöfða að hringtorginu. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 27. október. Kl. 7.52 varð gangandi vegfarandi, sem hlaupið hafði á eftir strætisvagni í Mjódd, með báða fætur undir afturhjóli hans. Vegfarandinn, stúlka, var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.14 varð árekstur með bifreið, sem ekið var vestur Stakkahraun og beygt áleiðis suður Reykjavíkurveg, og bifreið sem ekið var norður Reykjavíkurveg. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 28. október. Kl. 9.19 varð gangandi vegfarandi fyrir hjólreiðamanni við Borgartún á móts við hús nr. 6 með þeim afleiðingum að flytja þurfti báða á slysadeild. Og kl. 20.09 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut. Á móts við IKEA var henni ekið aftan á aðra á sömu leið. Við höggið kastaðist sú bifreið áfram og lenti aftan á traktorsgröfu. Báðir ökumenn bifreiðanna voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 29. október. Kl. 16.47 féll drengur af reiðhjóli á sleypri trébrú á göngustíg undir brúnni á Ásbraut. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.40 féll hjólreiðamaður á reiðhjóli á gangstétt í Bríetartúni á móts við hús nr. 1. Hann var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 30. október kl. 14.43 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á beygjuakrein Hafnarfjarðarvegar austan Fjarðarhrauns. Farþegi í einni bifreiðinni var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 31. október. Kl. 1.58 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið á Kringlumýrarbraut, á gangbrautarljósum á móts við Hamrahlíð. Bifreiðinni hafði verið ekið til norðurs og hinn gangandi, dökklæddur, var á leið til vesturs yfir götuna – á móti rauðu ljósi. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 14.43 varð aftanákeyrsla á beygjuakrein Reykjanesbrautar sunnan Bústaðavegar. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni.

Frá vettvangi á Reykjanesbraut í Garðabæ.

Frá vettvangi á Reykjanesbraut í Garðabæ.