Frá vettvangi við Suðurlandsbraut.
16 Nóvember 2015 12:05

Í síðustu viku slösuðust átján vegfarendur í þrettán umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 8. – 14. nóvember.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 8. nóvember. Kl. 1.59 féll hjólreiðamaður af hjóli sínu á gangstéttinni framan við bílastæðahúsið undir Seðlabankanum við Kalkofnsveg. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 3.08 var bifreið ekið suður Álfabakka í átt að Reykjanesbraut, gegn einstefnu, þar sem bifreiðin lenti á kyrrstæðum tengivagni við götuna. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis. Farþegi í bifreiðinni var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.44 var bifreið ekið út af Kaldárselsvegi skammt sunnan við Hlíðarþúfur með þeim afleiðingum að hún valt á hvolf. Hálka var þegar óhappið varð. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 9. nóvember. Kl. 14.36 rann hjólreiðamaður til í hálku á Hvaleyrarbraut og hafnaði á ljósastaur. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 16.13 var bifreið ekið suður Gjáhellu og út fyrir veg. Ökumaðurinn taldi sig hafa fengið aðsvif skömmu áður en óhappið varð. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.15 varð hjólreiðamaður fyrir bifreið á Egilsgötu við Snorrabraut. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 10. nóvember. Kl. 10.44 valt jeppabifreið á Heiðmerkurvegi við Rauðhóla. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 11.42 var vörubifreið ekið norður Austurmýri og beygt áleiðis austur Desjamýri. Í beygjunni rann bifreiðin til í hálku og lenti framan á annarri vörubifreið, sem þar var kyrrstæð við gatnamótin. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 11. nóvember. Kl. 2.11 var bifreið ekið á ljósastaur við Hafnarfjarðarveg hjá Olís Garðabæ. Ökumaðurinn, sem virtist í annarlegu ástandi, var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.58 var bifreið ekið á umferðarmerki og tvær flaggstangir við Suðurlandsbraut á móts við Eldsmiðjuna. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Fimmtudaginn 12. nóvember kl. 2.48 lenti bifreið, sem ekið hafði verið vestur Hamrastekk, á tveimur umferðarmerkjum áður en hún stöðvaðist á ljósastaur. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 13. nóvember. Kl. 11.42 varð árekstur tíu bifreiða á Gullinbrú á leið til suðurs. Svo virðist sem um hafi verið að ræða þrjár lotur aftanákeyrslna, sem enduðu með því að aftasta bifreiðin kastaði þeim sem fyrir framan voru í eina kös. Þegar lögreglumenn voru svo við störf á vettvangi var ekið á eina lögreglubifreiðina kyrrstæða. Í þessu eina óhappi skemmdust því tólf ökutæki. Mörg þeirra mega teljast ónýt. Þegar óhappið varð var suðursólin lágt á lofti, auk þess sem hálka hafði myndast á akbrautinni. Fjórir, þrír ökumenn og farþegi, voru fluttir á slysadeild. Og kl. 22.53 varð árekstur með bifreið, sem ekið var suður Elliðavatnsveg, og bifreið, sem ekið var af Vífilsstaðavegi inn á Elliðavatnsveg. Ökmaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni – ekki síst núna þegar búast má við snjó og hálku sérhvern dag, auk þess sem sólin, þá er hún sést, er jafnan lágt á lofti og getur hindrað útsýni ökumanna sem og annarra vegfarenda.

Frá vettvangi við Suðurlandsbraut.

Frá vettvangi við Suðurlandsbraut.