1 Desember 2015 11:18
Í síðustu viku slösuðust tuttugu og fjórir vegfarendur í fjórtán umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 22. – 28. nóvember.
Sunnudaginn 22. nóvember kl. 21.46 var bifreið ekið í frárein Vesturlandsvegar að Rafstöðvarvegi og á ljósastaur við gatnamótin. Ökumaðurinn hafi óvart stigið á eldneytisgjöfina þegar hann ætlaði að hemla. Hann ásamt tveimur farþegum voru fluttir á slysadeild.
Mánudaginn 23. nóvember kl. 9.55 var bifreið ekið utan í vegrið á rampi frá Fífuhvammsvegi í átt að Hafnarfjarðarvegi í norðurátt. Ökumaðurinn, eldri kona, hafði fengið svima við aksturinn með fyrrgreindum afleiðingum. Hún var flutt á slysadeild.
Þriðjudaginn 24. nóvember kl. 7.38 var bifreið ekið á jafnvægisstólpa byggingarkrana á Skipalóni við Melabraut. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 25. nóvember. Kl. 18.45 varð aftanákeyrsla á Miklubraut í austurátt á móts við Miklatún. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.20 var bifreið ekið austur Sæbraut og framan á bilaða bifreið, sem verið var að ýta yfir akbrautina áleiðis að Skeiðarvog. Ökumaður og tveir farþegar í aðkomandi bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 26. nóvember. Kl. 15.59 var bifreið ekið á mann í Aðalstræti. Hann leitaði sér aðstoðar á slysadeild. Og kl. 16.46 varð árekstur með bifreið, sem ekið var um Breiðholtsbraut, og bifreið, sem ekið var um Vatnsendahvarf. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.
Fimm umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 27. nóvember. Kl. 9.13 valt vörubifreið á hliðina í malargryfjum við Bolöldu. Við skoðun á ökutækinu kom í ljós að fjaðrablað á aftari hásingu á tengivagni var brotið og við það hefur komið slagssíða á vagninn þegar ökumaðurinn sturtaði með fyrrgreindum afleiðingum. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 12.10 varð árekstur með bifreið, sem ekið var suður Grensásveg með ætlaða akstursstefnu áfram suður veginn, gegn rauðu umferðarljósi, og í veg fyrir tvær bifreiðar, sem voru nýlagðar af stað á grænu umferðarljósi austur Miklubraut. Ökumaður fremri bifreiðarinnar, barnshafandi kona, var fluttur á slysadeild. Kl. 16.55 var bifreið ekið út af Vesturlandsvegi gegnt Esjubergi þar sem hún valt. Ökumaðurinn og þrjú börn, sem voru í bifreiðinni, voru flutt á slysadeild. Kl. 21.30 var bifreið ekið suður Hafnarfjarðarveg og aftan á kyrrstæða bifreið við Kópavogsbrú. Við áreksturinn kastaðist fremri bifreiðin aftan á aðra kyrrstæða bifreið framundan. Farþegi í öftustu bifreiðinni og ökumaður fremstu bifreiðarinnar voru fluttir á slysadeild. Og kl. 23.53 var bifreið ekið norður Vesturlandsveg og út fyrir veg við Hvalfjarðarveg. Ökumaðurinn, sem talið er að hafi fengið heilablóðfall við aksturinn, var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 28. nóvember. Kl. 0.27 var bifreið ekið norður Vesturlandsveg og á ljósastaur við Korputorg. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 18.10 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Miklubraut við Grensásveg. Farþegi í einni bifreiðinni, ófrísk kona, var flutt á slysadeild til skoðunar.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni – ekki síst núna þegar snjór þekur jörð og búast má við hálku sérhvern dag.