Frá vettvangi við Hádegismóa.
9 Desember 2015 11:35

Í síðustu viku slösuðust fjórtán vegfarendur í tólf umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 29. nóvember – 5. desember.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 29. nóvember. Kl. 1.57 var bifreið ekið vestur Suðurgötu. Á móts við Grímshaga snerist bifreiðin í hálku og hafnaði á ljósastaur við gatnamótin. Ökumaðurinn leitaði sér sjálfur aðstoðar á slysadeild. Kl. 12.10 varð aftanákeyrsla í frárein Reykjanesbrautar að Vesturlandsvegi. Ökumaður aftari bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 22.07 varð árekstur með bifreið, sem ekið var austur Vífilsstaðaveg og bifreið sem ekið var austur veginn og beygt áleiðis að Stekkjarflöt. Farþegi í síðarnefndu bifreiðinni var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.56 var bifreið ekið út af vegi við Hádegismóa þar sem hún valt. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 30. nóvember kl. 6.59 var dökkblárri fólksbifreið ekið vestur Hraunbæ þar sem hún á lenti kyrrstæðri bifreið á syðri akbrautinni. Við áreksturinn lenti hliðarspegill síðarnefndu bifreiðarinnar á fyrrum ökumanni hennar þar sem hann stóð við afturhornið. Dökkbláu bifreiðinni var ekið hiklaust áfram af vettvangi. Hlutaðeigandi var ekið á slysadeild til skoðunar.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 1. desember. Kl. 11.36 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á leið suður Kringlumýrarbraut og hafnaði utan vegar. Ökumaðurinn meiddist á hné og var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild. Og kl. 16.42 varð árekstur bifreiða á gatnamótum Langatanga og Bogatanga í ófærð. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.

Miðvikudaginn 2. desember kl. 23.09 var bifreið ekið vestur Reykjanesbraut þegar ökumaður missti skyndilega vald á bifreiðinni, hún rásaði, valt út fyrir veg og hafnaði á ljósastaur. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 3. desember. Kl. 0.11 var bifreið ekið á vegrið við Vesturlandsveg í Kollafirði. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 14.46 varð árekstur með þremur bifreiðum á gatnamótum Reykjavíkurvegar og Hjallabrautar. Umferðarljós eru við gatnamótin. Einni bifreiðinni var ekið inn á gatnamótin á móti rauðu ljósi, lenti utan í annarri bifreið og stöðvaðist á hlið þeirrar þriðju. Ökumaður þeirrar bifreiðar var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.35 var bifreið ekið austur Reykjanesbraut og aftan á bifreið, sem ekið hafði verið af Krýsuvíkurvegi og beygt áleiðis austur brautina. Ökumaður og farþegi í síðarnefndu bifreiðinni leituðu sér sjálfir aðstoðar á slysadeild.

Föstudaginn 4. desember kl. 17.57 festi ökumaður vöruflutningabifreiðar aðra hönd sína undir vinstra afturhjóli bifreiðar sinnar á Keilugranda. Hann var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni – ekki síst núna þegar snjór þekur jörð og búast má við hálku sérhvern dag.

Frá vettvangi við Hádegismóa.

Frá vettvangi við Hádegismóa.