Frá vettvangi á Nýbýlavegi.
16 Desember 2015 09:55

Í síðustu viku slösuðust sautján vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 6. – 12. desember.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 6. desember. Kl. 1.57 varð aftanákeyrsla á Stekkjabakka við Álfabakka. Báðir ökumennirnir og farþegi í annarri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Og kl. 18.01 varð drengur fyrir bifreið á Suðurbraut skammt frá Hvaleyrarbraut. Drengurinn hafði komið út úr kyrrstæðum strætisvagni á biðstöð og hlaupið áleiðis yfir götuna þegar óhappið varð. Honum var ekið á slysadeild til skoðunar.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 7. desember. Kl. 16.08 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Nýbýlaveg, og bifreið, sem var ekið austur Nýbýlaveg og beygt áleiðis norður Birkigrund. Ökumenn og farþegi í fyrrnefndu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Og kl. 17.24 var bifreið bakkað yfir fót á vegfaranda á bifreiðastæðinu framan við Fjarðarkaup við Hólshraun. Hann var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 8. desember kl. 12.01 varð árekstur með tveimur bifreiðum sem ekið var um Reykjanesbraut í gagnstæðar áttir skammt vestan Krýsuvíkurvegar. Annarri bifreiðinni, sem ekið var austur brautina, mun hafa verið ekið yfir á rangan vegarhelming rétt áður en áreksturinn varð. Ökumaðurinn er grunaður um að hafa verið undir áhrifum áfengis. Hann, ásamt hinum ökumanninum sem og tveimur farþegum í þeirri bifreið, voru fluttir á slysadeild.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 11. desember. Kl. 3.44 var bifreið ekið suður Gullinbrú þegar hún byrjaði að rása í hálku með þeim afleiðingum að hún lenti á ljósastaur. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Kl. 14.41 varð aftanákeyrsla á Breiðholtsbraut norðan Suðurfells. Ökumaður aftari bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 20.26 lenti biluð bifreið, sem verið var að ýta niður ramp að innkeyrslu við Baugakór, á húsvegg. Farþegi í bifreiðinni var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.06 varð aftanákeyrsla á Stekkjarbakka vestan Álfabakka. Ökumaður aftari bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni – ekki síst núna þegar snjór þekur jörð og búast má við hálku sérhvern dag.

Frá vettvangi á Nýbýlavegi.

Frá vettvangi á Nýbýlavegi.