Frá vettvangi við Suðurlandsveg.
28 Desember 2015 11:01

Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu, en í einu slysanna lést karl á sextugsaldri. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 20. – 26. desember.

Mánudaginn 21. desember kl. 6.34 varð hjólreiðamaður fyrir bifreið á Vesturlandsvegi í Ártúnsbrekku á leið til austurs. Bifreiðinni hafði verið ekið áleiðis að aðrein að Höfðabakka þegar hjólreiðamaðurinn var á leið þar áfram austur veginn. Hann var úrskurðaður látinn á vettvangi.

Þriðjudaginn 22. desember kl. 15.28 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Sæbraut til vesturs við gatnamót Klettagarða. Farþegi í miðbifreiðinni var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 23. desember. Kl. 17.30 varð aftanákeyrsla á Bústaðavegi við Háaleitisbraut. Ökumaður og tveir farþegar úr aftari bifreiðinni leituðu sér aðhlynningar á slysadeild. Og kl. 19.08 varð árekstur tveggja bifreiða á gatnamótum Hverfisgötu og Barónsstígs. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 25. desember kl. 16.59 var bifreið ekið austur Sörlaskjól. Á móts við hús nr. 80 byrjaði bifreiðin að snúast á klaka, ökumaðurinn reyndi að stöðva, en lenti á á vegfarenda, sem var að losa barn úr bílstól aftursætis kyrrstæðrar bifreiðar. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 26. desember. Kl. 11.26 varð árekstur með bifreið, sem ekið var austur Suðurlandsbraut og beygt áleiðis norður Reykjaveg, og bifreið, sem ekið var vestur Suðurlandsbraut. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 16.46 valt bifreið út af Suðurlandsvegi við Sandskeið. Bifreiðinni hafði verið ekið vestur veginn, framúr annarri bifreið á vinstri akrein og síðan beygt áleiðis aftur yfir á hægri akrein er óhappið varð. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 20.11 varð árekstur tveggja bifreiða, sem annars vegar var ekið norður Kringlumýrarbraut og hins vegar vestur Sundlaugarveg að Borgartúni. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni – ekki síst núna þegar snjór þekur jörð og búast má við hálku sérhvern dag.

Frá vettvangi við Suðurlandsveg.

Frá vettvangi við Suðurlandsveg.