Frá vettvangi við Gullinbrú.
6 Janúar 2016 10:31

Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 27. desember – 2. janúar.

Sunnudaginn 27. desember kl. 6.17 varð árekstur með leigubifreið og saltdreifara með snjóplóg þar sem báðum ökutækjunum var ekið norður Sæbraut að Súðarvogi. Ökumaður leigubifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 28. desember. Kl. 13.32 var bifreið ekið um afrein frá Grensásvegi og áfram áleiðis vestur Miklubraut, í veg fyrir strætisvagn, sem ekið var vestur brautina. Þegar ökumaður strætisvagnsins reyndi að koma í veg fyrir árekstur kastaðist farþegi í vagninum á annan farþega, sem meiddist. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.39 var bifreið ekið út af Elliðavatnsvegi við Skyggnisholt. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 29. desember. Kl. 15.49 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið á Hringbraut á móts við Víði. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 16.49 varð árekstur með bifreiðum sem var ekið um Reykjaveg úr gagnstæðum áttum. Annarri bifreiðinni hafði verið ekið yfir á rangan vegarhelming áður en óhappið varð. Báðir ökumennirnir, auk farþega í annarri bifreiðinni, voru fluttir á slysadeild. Og kl. 16:57 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið á Kringlumýrarbraut við Hamrahlíð. Bifreiðinni hafði verið ekið suður brautina þegar hinn gangandi var á leið til austurs áleiðis yfir hana. Hann var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 31. desember. kl. 4.36 var bifreið ekið um Höfðabakka áleiðis að Gullinbrú þegar hún rann til í hálku með þeim afleiðingum að bifreiðin lenti á ljósastaur við gatnamótin. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni – ekki síst núna þegar snjór þekur jörð og búast má við hálku sérhvern dag.

Frá vettvangi við Gullinbrú.

Frá vettvangi við Gullinbrú.