19 Janúar 2016 10:30
Í síðustu viku slösuðust sextán vegfarendur í tólf umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 10. – 16. janúar.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 11. janúar. Kl. 12.51 valt bifreið á Kringlumýrarbraut skammt norðan Hamraborgar. Bifreiðinni, sem hafði verið ekið til norðurs, snerist í hring á akbrautinni og inn á milli vegriða. Þar lenti bifreiðin upp á harðan snjóskafl með þeim afleiðingum að hún tókst á loft og stefndi áleiðis yfir á rangan vegarhelming. Framundan var bifreið ekið til suðurs. Ökumaður þeirrar bifreiðar beygði undan, en lenti þá utan í bifreið, sem ekið var í sömu átt hægra megin við hann. Ökumaður fyrstnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 15.48 var bifreið ekið vestur Vesturlandsveg. Á móts við Saltvík missti ökumaðurinn stjórn á bifreiðinni vegna hálku og skafrennings. Hún fór út af veginum hægra megin, valt eina og hálfa veltu og hafnaði á toppnum ofan í skurði. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Kl. 16.04 varð árekstur með bifreiðum á Hafnarfjarðarvegi við Kópavogsgjána á leið til norðurs. Ökumaður hafði ekið á vinstri akrein, en misst stjórn á bifreiðinni áður en hún lenti á vinstri hlið kyrrstæðrar bifreiðar á hægri akrein. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.35 varð fjögurra bifreiða aftanákeyrsla á Sæbraut við Langholtsveg. Ökumaður og farþegi í næst öftustu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.
Þriðjudaginn 12. janúar kl. 7.59 stöðvaði ökumaður í Háholti við Krónuna. Þegar farþegi steig út úr bifreiðinni var annarri bifreið ekið fram með henni. Ökumaður þeirrar bifreiðar reyndi að beygja undan, en lenti við það á nálægu umferðarskilti og á farþeganum, sem var síðan fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 13. janúar. Kl. 13.26 var bifreið ekið á ljósastaur við gatnamót Höfðabakka og Stórhöfða. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 7.53 var bifreið ekið á þrjár bifreiðir á Ásbraut við Tjarnartorg áður en bifreiðin fór yfir grindverk á milli akbrauta og hafnaði á ljósastaur. Ökumaðurinn hafði fengið aðsvif áður en óhappið varð. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.16 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Suðurlandsbraut við Faxafen. Móða innan á rúðum öftustu bifreiðarinnar hafði hindrað útsýni ökumanns. Hann, ásamt farþega í bifreiðinni, voru fluttir á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 14. janúar. Kl. 7.24 lenti gangandi vegfarandi fyrir bifreið á Karlabraut við Espilund. Hann var fluttur á slysadeild. Hélaðar rúður bifreiðarinnar höfðu hindrað eðlilegt útsýni ökumanns áður en vegfarandinn varð fyrir henni. Kl. 12.34 var bifreið beygt frá Klébergsskóla til hægri þar sem hún lenti á ljósastaur. Ökumaðurinn hafði blindast af sólinni framundan. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.26 rákust fjórar bifreiðar saman í frárein Reykjanesbrautar að Vesturlandsvegi. Fremsta bifreiðin snerist á veginum og stöðvaðist utan í vegriði, öfugt miðað við akstursstefnu. Bifreið, sem ekið hafði verið á eftir, lenti framan á henni. Í framhaldinu lenti bifreið aftan á henni og síðan sú fjórða aftan á þeirri bifreið. Ökumaður einnar bifreiðarinnar og farþegi í annarri voru fluttir á slysadeild til skoðunar. Ökumaður fremstu bifreiðarinnar var grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.
Laugardaginn 16. janúar kl. 10 varð umferðarslys á Vesturlandsvegi við Skarhólabraut. Málavextir liggja ekki fyrir. Ökumaður var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni – ekki síst núna þegar snjór þekur jörð og búast má við hálku sérhvern dag.