Frá vettvangi við Salaveg í Kópavogi.
2 Febrúar 2016 18:58

Í síðustu viku slösuðust fimm vegfarendur í jafnmörgum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 24. – 30. janúar.

Þriðjudaginn 26. janúar kl. 8 varð árekstur með tveimur bifreiðum er þær mættust á Vesturlandsvegi í Kollafirði. Ökumaður á leið til norðurs missti stjórn á bifreiðinni, sem rann yfir á rangan vegarhelming. Ökumaðurinn kenndi til eymsla í hendi, baki og í hálsi. Hann ætlaði að leita sér sjálfur aðstoðar á slysadeild.

Fimmtudaginn 28. janúar kl. 17.34 var bifreið ekið suður Salaveg að Arnarnesvegi. Ökumaðurinn náði ekki að stöðva við biðskyldu við gatnamót Arnarnesvegar og lenti því í veg fyrir bifreið, sem ekið var vestur til vesturs. Sú bifreið kastaðist áfram um 30 metra, yfir á rangan vegarhelming, þar sem hún lenti utan í bifreið sem kom úr gagnstæðri átt. Ökumaður einnar bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 29. janúar kl. 9.41 varð aftanákeyrsla á Sæbraut til austurs við Snorrabraut. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 30. janúar. Kl. 12.17 varð árekstur með bifreiðum, sem báðum var ekið norður Hafnarfjarðarveg. Bifreiðin á hægri akrein rann til og lenti á hægri hlið bifreiðar á vinstri akrein, sem við það lenti utan í vegriði samhliða veginum. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 13.02 var bifreið ekið norður Hafnarfjarðarveg, upp á aðrein að Hamraborg við Digranesveg og á umferðarskilti. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni – ekki síst núna þegar snjór þekur jörð og búast má við hálku sérhvern dag.

Frá vettvangi við Salaveg í Kópavogi.

Frá vettvangi við Salaveg í Kópavogi.