8 Febrúar 2016 12:15
Í síðustu viku slösuðust fimmtán vegfarendur í ellefu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 31. janúar – 6. febrúar.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 2. febrúar. Kl. 14.15 var bifreið ekið á ljósastaur við Hlíðarberg nálægt Lindarbergi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.34 varð árekstur með tveimur bifreiðum á gatnamótum Suðurlandsbrautar og Grensásvegar er ekið var úr gagnstæðum áttum. Ökumaður og farþegi í annarri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.
Þrú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 3. febrúar. Kl. 9.46 varð árekstur með bifreið, sem ekið var austur Stekkjarbakka og beygt áleiðis norður frárein að Reykjanesbraut, og bifreið, sem ekið var vestur Stekkjarbakka. Ökumaður og farþegi síðarnefndu bifreiðarinnar voru fluttir á slysadeild. Kl. 16.43 varð árekstur með bifreiðum, sem ekið var um Suðurlandsveg við Gunnarshólma í gagnstæðar áttir. Ökumaður á leið austur missti vald á bifreið sinni í hálku, fór yfir á rangan vegarhelming og framan á bifreið, sem kom á móti. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.47 var bifreið ekið austur Reynisvatnsveg og á vegrið við gatnamót Jónsgeisla. Farþegi í bifreiðinni var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 4. febrúar kl. 16.17 var bifreið ekið á ljósstaur við Vesturlandsveg við Leirvogstungur. Ökumaðurinn hafði ekið til suðurs er sterk vindhviða skall á bifreiðinni og feykti henni til hliðar með framangreindum afleiðingum. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Þrú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 5. febrúar. Kl. 8.06 var bifreið ekið hægri akrein fráreinar af Hafnarfjarðarvegi að Arnarnesvegi þegar bifreið var beygt af vinstri akreininni framundan, áleiðis í veg fyrir hana. Við það hafi ökumaðurinn beygt undan og þá lent á stóru grjóti þar utan vegar. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 15.58 varð árekstur með bifreið, sem ekið var eftir hægri akrein suður Lönguhlíð að gatnamótum Flókagötu með ætlaða akstursstefnu áfram suður Lönguhlíð, og bifreið, sem ekið var austur Flókagötu og að gatnamótum Lönguhlíðar yfir gatnamótin og áfram austur Flókagötu. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.09 varð árekstur tveggja bifreiða á gatnamótum Suðurlandsbrautar og Álfheima. Annarri bifreiðinni var ekið vestur Suðurlandsbraut og hinni um Álfheima. Báðir ökumennirnir og farþegi í þeirri síðarnefndu voru fluttir á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 6. febrúar. Kl. 3.11 varð árekstur með bifreiðum, sem ekið var norður Kringlumýrarbraut og beygt áleiðis vestur Miklubraut, og bifreið, sem ekið var austur Miklubraut. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar er grunaður um ölvun við akstur. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 12.6 varð árekstur með bifreið, sem ekið var norður Vatnagarða til suðurs að Sægörðum, og bifreið, sem ekið var niður ramp frá bifreiðastæðunum við Holtagarða inn á Vatnagarða. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni – ekki síst núna þegar snjór þekur jörð og búast má við hálku sérhvern dag.