Frá vettvangi við Breiðholtsbraut.
24 Febrúar 2016 16:16

Í síðustu viku slösuðust fjórtán vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 14. – 20. febrúar.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 15. febrúar. Kl. 15.07 varð árekstur með bifreið, sem ekið var austur Miklubraut, og bifreið, sem ekið var suður Grensásveg. Báðir ökumennirnir og farþegi í fyrrnefndu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Og kl. 16.51 varð árekstur með bifreið, sem ekið var vestur Bogatanga og beygt áleiðis norður Langatanga, og bifreið, sem ekið var austur Bogatanga. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Ökumaður þeirrar síðarnefndu sagðist einnig myndi leita aðstoðar á slysadeild ásamt farþega í bifreiðinni.

Þriðjudaginn 16. febrúar kl. 5.42 varð árekstur með bifreið, sem ekið var vestur Reynisvatnsveg og áfram áleiðis vestur Víkurveg, og bifreið, sem ekið var norður Þúsöld með fyrirhugaða akstursstefnu yfir gatnamótin. Ökumaður og farþegi í fyrrnefndu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Miðvikudaginn 17. febrúar kl. 17.33 varð árekstur með bifreið, sem ekið var af bifreiðastæði við Egilshöll, og bifreið, sem ekið var austur Fossaleyni. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 19. febrúar. Kl. 1.05 var bifreið ekið út af Hafnarfjarðarvegi til suðurs undir Hamraborginni. Ökumaður var fluttur á slysadeild. Kl. 16.48 rann bifreið yfir fót ökumanns í Tröllakór eftir að hann hafði stigið út, en gleymt að setja bifreiðina í gír. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 17.44 varð árekstur með bifreið sem ekið var norður Hlégerði, og bifreið, sem ekið var vestur Borgarholtsbraut. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.20 varð árekstur með bifreið, sem ekið var austur Breiðholtsbraut, og bifreið, sem ekið var vestur Breiðholtsbraut og beygt áleiðis suður Seljaskóga. Við áreksturinn lenti síðarnefnda bifreiðin á umferðarljósavita við gatnamótin. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar leitaði sér sjálfur aðstoð starfsfólks slysadeildar eftir óhappið.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 20. febrúar. Kl. 1.53 varð árekstur með bifreið, sem ekið var vestur Breiðholtsbraut, og bifreið, sem ekið var austur Breiðholtsbraut og beygt áleiðis norður Norðurfell. Farþegi í fyrrnefndu bifreiðinni ætlaði að leita sér aðstoðar á slysadeild vegna eymsla. Og kl. 8.08 féll hjólreiðamaður af hjóli sínu á gangstíg við listaverkin nálægt gatnamótum Strandvegar Borgavegar. Glerhált var á stígnum. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á sysadeild, fótbrotinn og með slitin liðbönd.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni – ekki síst núna þegar snjór þekur jörð og búast má við hálku sérhvern dag. Mikilvægt er að þrífa framrúðuna reglulega svo útsýni ökumanns verði óhindrað – sérstaklega þessa dagana þegar sólin er lágt á lofti.

Frá vettvangi við Breiðholtsbraut.

Frá vettvangi við Breiðholtsbraut.