1 Mars 2016 09:45
Í síðustu viku slösuðust sex vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 21. – 27. febrúar.
Mánudaginn 22. febrúar kl. 22.02 varð árekstur með bifreið, sem ekið var norður Kringlumýrarbraut, og bifreið, sem ekið var suður Kringlumýrarbraut og beygt áleiðis austur Suðurlandsbraut. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 25. febrúar kl. 13.52 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið í bílakjallara undir Smáratorgi. Hann var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 26. febrúar kl. 7.33 var bifreið ekið til suðurs út af Vesturlandsvegi á móts við Klébergsskóla, þar sem hún lenti á ljósastaur og kastaðist síðan spölkorn áfram. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 27. febrúar. Kl. 0.45 var bifreið ekið norður Reykjanesbraut. Skammt norðan við Vífilsstaðaveg var bifreiðinni ekið út á vegöxlina hægra megin m.v. akstursstefnu og þar á einn ljósastaur er kubbaðist í sundur. Bifreiðinni var síðan ekið áfram eftir vegöxlinni og þar á annan ljósastaur er einnig kubbaðist í sundur. Við að lenda á seinni staurnum þá valt bifreiðin eina veltu. Er bifreiðin kom aftur niður á hjólin þá lenti hægri hlið hennar á enda á vegriði þannig að ytra byrði á hægri framhurð varð eftir á vegriðinu, en bifreiðin kastaðist síðan frá vegriðinu og stöðvaðist þannig að framendi hennar vísaði í suður – það er á móti akstursátt bifreiðarinnar. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvun við akstur, var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.48 var bifreið ekið vestur Breiðholtsbraut og á kyrrstæða bifreið við Jaðarsel/Suðurfell við Yrsufell. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni – ekki síst núna þegar snjór þekur jörð og búast má við hálku sérhvern dag. Mikilvægt er að þrífa framrúðuna reglulega svo útsýni ökumanns verði óhindrað – sérstaklega þessa dagana þegar sólin er lágt á lofti.