Frá vettvangi við Bláfjallaveg.
7 Mars 2016 12:36

Í síðustu viku slösuðust þrettán vegfarendur í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 28. febrúar – 5. mars.

Sunnudaginn 28. febrúar kl. 19.13 varð árekstur með bifreið, sem ekið var vestur Vatnsendahvarf að Breiðholtsbraut, og bifreið, sem ekið var í veg fyrir hana frá Ögurhvarfi. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 1. mars. Kl. 17.22 varð 8 ára drengur fyrir bifreið á Sundlaugarvegi við Laugarlæk. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.42 valt bifreið út af Bláfjallavegi. Tvennt var í bifreiðinni, ökumaður og 11 ára sonur. Ökumaðurinn kvartaði um eymsli í höfði og handlegg. Báðir voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 2. mars. Kl. 3.13 var bifreið ekið út fyrir Þingvallaveg gegnt Skálafelli. Þrír farþegar voru fluttir á slysadeild. Ökumaðurinn er grunaður um ölvunarakstur. Og kl. 13.57 var bifreið ekið norður Hálsabraut og á kyrrstæða bifreið á gatnamótum Krókhálsar/Draghálsar. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 3. mars. Kl. 12:56 varð aftanákeyrsla á Sæbraut við Skeiðarvog. Ökumaður og farþegi í aftari bifreiðinni voru fluttir á Slysadeild. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Og kl. 22.37 var bifreið ekið vestur Nýbýlaveg og á ljósastaur við gatnamót Þverbrekku. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 5. mars kl. 10.30 varð árekstur með bifreið, sem ekið var norður Háaleitisbraut, á móti rauðu ljósi, og bifreið, sem ekið var vestur Miklubraut. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni – ekki síst núna þegar snjór þekur jörð og búast má við hálku sérhvern dag. Mikilvægt er að þrífa framrúðuna reglulega svo útsýni ökumanns verði óhindrað – sérstaklega þessa dagana þegar sólin er lágt á lofti.

Frá vettvangi við Bláfjallaveg.

Frá vettvangi við Bláfjallaveg.