Frá vettvangi í Laxatungu.
29 Mars 2016 14:19

Í síðustu viku slösuðust fjórtán vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 20. – 26. mars.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 20. mars. Kl. 12.02 var bifreið ekið aftan á mannlausa bifreið í bifreiðastæði við Laxatungu. Við áreksturinn kastaðist mannlausa bifreiðin á nálægan ljósastaur. Ökumaðurinn hafði teygt sig eftir veski sínu og þá snúið stýrinu til hægri með framangreindum afleiðingum. Hann leitaði sér læknisaðstoðar á Heilsugæsluna í Mosfellsbæ. Og kl. 14.58 féll hjólreiðamaður á göngustíg í Fossvogsdal. Hann hafði verið að hjóla á stíg sem búið var að hreinsa af allri möl. Síðan var hann á leiðinni yfir í Kópavog þar sem hann hjólaði inn á annan stíg er ekki var búið að hreinsa mölina burt og þar af leiðandi missti hann stjórn á reiðhjólinu og féll af því. Hann var fluttur á slysadeild.

Sjö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 23. mars. Kl. 8.14 var bifreið ekið út í skurð við Elliðavatnsveg nálægt golfvellinum. Bifreiðinni hafði verið ekið til norðurs þegar ökumaðurinn blindaðist af morgunsólinni. Hann og einn farþegi voru fluttir á slysadeild. Kl. 12.24 varð árekstur með bifreið, sem ekið var norður Kringlumýrarbraut og beygt áleiðis austur Listabraut, og bifreið, sem ekið var suður Kringlumýrarbraut og beygt áleiðis austur Listabraut. Eftir áreksturinn hafnaði fyrrnefnda bifreiðin á ljósastaur. Ökumaðurinn ætlaði að leita sér læknisaðstoðar vegna eymsla í brjóstkassa. Kl. 12.34 varð stúlka fyrir strætisvagni er ekið var frá biðstöð við Flyðrugranda og beygt áleiðis norður Meistaravelli. Hún var flutt á slysadeild. Kl. 15.03 varð árekstur með bifreið, sem ekið var austur Flatahraun inn á FH-torg, og bifreið, sem ekið var suður Flatahraun. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 16.18 varð árekstur með bifreið, sem ekið var suður Breiðholtsbraut á móts við Norðlingaholt og beygt yfir á rangan vegarhelming til að forðast að lenda á bifreið fyrir framan, og bifreið, sem ekið var norður brautina. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 16.25 varð aftanákeyrsla á Bæjarhálsi til vesturs við gatnamót Hraunbæjar og Bitruhálsar. Farþegi í fremri bifreiðinni var fluttur á slysadeild. Og kl. 17 varð árekstur með bifreið, sem ekið var vestur Grensásveg og beygt áleiðis inn á bifreiðastæði við Kjötbúðina, og bifreið, sem ekið var austur veginn. Ökumaður og farþegi kenndu til eymsla og ætluðu sjálfir að leita sér aðstoðar á slysadeild.

Fimmtudaginn 24. mars kl. 21.46 varð árekstur með bifreið, sem ekið var vestur Vesturlandsveg og yfir á rangan vegarhelming, í veg fyrir bifreið, sem ekið var norður veginn. Báðir ökumennirnir og farþegi í síðarnefndu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni.

Frá vettvangi í Laxatungu.

Frá vettvangi í Laxatungu.