Frá vettvangi á Vesturlandsvegi.
11 Apríl 2016 14:52

Í síðustu viku slösuðust tuttugu og fjórir vegfarendur í sextán umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 3. – 9. apríl.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 4. apríl. Kl. 10.47 var bifreið ekið austur Bríetartún, beygt yfir á rangan vegarhelming vestan Þórunnartún og á mannlausa bifreið í stöðureit norðan götunnar. Við áreksturinn kastaðist sú bifreið á aðra mannlausa við hlið hennar. Ökumaðurinn, sem virtist í öndunarerfiðleikum, var fluttur á slysadeild. Kl. 13.55 var malarflutningabifreið ekið vestur Krýsuvíkurveg skammt sunnan Hafnarfjarðar þegar ökumaðurinn sá skyndilega aðra malarflutningabifreið kyrrstæða framundan, beygði til vinstri, en lenti við það bæði á bifreiðinni framundan og utan í þriðju malarflutningabifreiðinni, sem ekið var austur veginn. Ökumaður fyrstnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 14.33 varð aftanákeyrsla á Miklubraut til austurs við Kringlumýrarbrautar. Farþegi í fremri bifreiðinni var fluttur á slysadeild.

Fimm umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 5. apríl. Kl. 8.27 varð hjóleiðamaður fyrir bifreið í Brekkugerði við Stóragerði. Hann hafði hjólað Brekkugerði til austurs og ætlaði áfram Stóragerði til suðurs þegar bifreiðinni var ekið norður Stóragerði og beygt áleiðis vestur Brekkugerði. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 14.27 fékk ökumaður krampa í fót undir stýri er hann ók austur Vesturlandsveg og beygði áleiðis suður Höfðabakka. Við það þrýstist fóturinn á eldsneytisgjöfina. Farþegi tók í stýrið og beindi bifreiðinni yfir á rangan vegarhelming þar sem hún stöðvaðist að þrýstingnum afléttum. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 15.24 var bifreið ekið austur Bæjarlind, stöðvuð, ekið aftur á bak og framan á kyrrstæða aftan hennar. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 16.18 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Kringlumýrarbraut í suðurátt milli Háaleitisbrautar og Hringbrautar. Tvær fremri bifreiðarnar höfðu verið kyrrstæðar í röð bifreiða þegar þeirri þriðju var ekið aftan á bifreiðina fyrir framan er kastaðist á á þá fremstu. Ökumaður miðbifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.55 var bifreið ekið aftur á bak úr stæði inn á Heiðmerkurveg við Maríuhella, í veg fyrir bifreið, sem ekið var vestur veginn. Báðir ökumennirnir og farþegi í síðarnefndu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 6. apríl. Kl. 1.43 varð árekstur með bifreið, sem ekið var austur Bústaðaveg, og bifreið, sem ekið var norður Eyrarland. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar er grunaður um ölvun við akstur. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 10.18 var bifreið ekið út frá bifreiðastæði við Gulaþing, en þegar ökumaðurinn teygði sig jafnframt í öryggisbeltið, með það fyrir augum að setja það á sig, vissi hann ekki fyrr en bifreiðin lenti þar á ljósastaur. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 14.19 féll drengur af reiðhjóli á Hlíðarbergi milli Setbergstorgs og Reykjanesbrautar. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 14.25 var árekstur tveggja bifreiða á Reykjanesbraut til norðurs skammt norðan Bústaðavegar. Annar ökumannanna hafði beygt af miðakrein yfir á vestustu akreinina þegar bifreið á þeirri akrein rakst utan í hana með þeim afleiðingum að fyrrnefnda bifreiðin lenti á vegriði er aðskilur akbrautirnar. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 7. apríl. Kl. 8 varð 8 ára drengur á reiðhjóli fyrir bifreið, sem ekið var aftur bak úr bifreiðastæði frá húsi við Ásaþing. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 10.30 var bifreið ekið upp á umferðareyju og á umferðarskilti á Brúnavegi við Dalbraut. Ökumaðurinn hafði fengið aðsvif rétt áður en óhappið varð. Hann var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 8. apríl kl. 17.45 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Garðaveg og beygt áleiðis vestur Álftanesveg, og bifreið, sem ekið var á miklum hraða vestur Álftanesveg. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar er grunaður um ölvunarakstur. Ökumaður hennar og þrír farþegar í bifreiðinni, auk ökumanns fyrrnefndu bifreiðarinnar, voru fluttir á slysadeild.

Laugardaginn 9. apríl kl. 16.44 varð árekstur með bifreið, sem ekið var norður Vesturlandsveg og beygt yfir á rangan vegarhelming skammt norðan Þingvallavegar, og bifreið, sem ekið var suður Vesturlandsveg. Ökumennirnir og farþegi í síðarnefndu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Á vorin eiga eiga sumir ökumenn það til að auka hraðann umfram leyfileg mörk. Það er í rauninni alger óþarfi, enda skapar aukinn hraði einungis aukna hættu fyrir þá og aðra vegfarendur.

Frá vettvangi á Vesturlandsvegi.

Frá vettvangi á Vesturlandsvegi.