Frá vettvangi á Breiðholtsbraut.
18 Apríl 2016 10:47

Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 10. – 16. apríl.

Mánudaginn 11. apríl kl. 8.44 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Bústaðavegi vestan Grensásvegar á leið til vesturs. Ökumaður öftustu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 12. apríl kl. 6.03 var bifreið ekið upp á umferðareyju í Ögurhvarfi og þar á umferðarskilti. Ættingi ók ökumanninum á slysadeild. Hann hafði verið að tala í farsíma áður en óhappið varð og því ekki með hugann við aksturinn.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 13. apríl. Kl. 11.59 var bifhjóli ekið vestur Smiðjuveg, áleiðis framúr bifreið, sem ekið hafði verið vestur götuna og beygt áleiðis til suðurs að grænni götu. Ökumaður bifhjólsins, sem var réttindalaus, var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.25 féll ökumaður bifhjóls af því á Breiðholtsbraut við Norðlingaholt. Hann var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 14. apríl. Kl. 10.40 varð árekstur þriggja bifreiða á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Bifreiðum var ekið suður og norður fyrrnefndu götuna þegar bifreið var ekið, gegnt rauðu ljósi, vestur þá síðarnefndu. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar er ekið var um Kringlumýrarbraut var fluttur á slysadeild. Ökumaður síðastnefndu bifreiðarinnar er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Kl. 18.38 varð hjólreiðamaður, sem hjólaði yfir Miklubraut til suðurs og áfram áleiðis yfir frárein Grensásvegar, fyrir bifreið, sem ekið um fráreinina. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.33 féll ökumaður bifhjóls af hjólinu á Bústaðavegi til austurs. Bifreið hafði verið ekið frá Kringlumýrarbraut að Bústaðavegi og fipaðist ökumaður bifhjólsins við það með fyrrgreindum afleiðingum. Hann var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 15. apríl kl. 20.42 losnaði barnabílstóll í bifreið í akstri á Burknavöllum og eins árs gamalt barn, sem í honum var, féll við það á gólfið og meiddist á höfði. Barnið var flutt á slysadeild.

Laugardaginn 16. apríl kl. 3.52 var ekið yfir fót á manni við bílalúgu verslunar að Reykjavíkurvegi 60. Maðurinn, sem hafði staðið við lúguna þegar bifreiðinni var ekið að henni, missti við það jafnvægið og steig í veg fyrir bifreiðina. Hann var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það gildir einnig um bifhjólafólk. Á vorin eiga eiga sumir ökumenn það til að auka hraðann umfram leyfileg mörk. Það er í rauninni alger óþarfi, enda skapar aukinn hraði einungis aukna hættu fyrir þá og aðra vegfarendur.

Frá vettvangi á Breiðholtsbraut.

Frá vettvangi á Breiðholtsbraut.