Frá vettvangi við Norðurbrú.
17 Maí 2016 11:49

Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 8. – 14. maí.

Sunnudaginn 8. maí kl. 17.49 var strætisvagni ekið aftan á bifreið á Dalvegi við Breiðholtsbraut. Ökumaður og farþegi fremri bifreiðarinnar voru fluttir á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 12. maí. Kl. 8.56 varð hjólreiðamaður fyrir bifreið á gangbraut við Suðurver. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 18.53 varð gangandi vegfarandi fyrir skellunöðru við gatnamót Baugshlíðar og Klapparhlíðar. Gangandi vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.10 lenti hjólreiðamaður á bifreið í Tryggvagötu við Gaukinn. Hjólreiðamaðurinn leitaði sér aðstoðar á slysadeild vegna meiðsla.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 13. maí. Kl. 16.33 lenti hjólreiðamaður á hlið bifreiðar er hann hjólaði eftir gangstétt með Gömlu-Hringbraut og beygði áleiðis yfir götuna á gangbraut við Smáragötu. Bifreiðinni var ekið austur Gömlu-Hringbraut. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.50 féll ökumaður bifhjóls á Vesturlandsvegi til vesturs við Suðurlandsveg. Ökumaðurinn, sem ekki hafði öðlast ökuréttindi á bifhjólið, var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 14. maí kl. 16.27 var bifreið ekið á húsvegg við Norðurbrú. Ökumaðurinn, sem grunaður var um ölvun við akstur, var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um hjólreiða- og bifhjólafólk.

Frá vettvangi við Norðurbrú.

Frá vettvangi við Norðurbrú.