Frá vettvangi á Grensásvegi.
14 Júní 2016 11:04

Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur og einn lést í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 5. – 11. júní.

Sunnudaginn 5. júní kl. 13.55 varð árekstur með tveimur bifreiðum, sem ekið var úr gagnstæðum áttum í Hvalfjarðargöngunum (Vesturlandsvegi). Um 700 metrum norðan gangamunnans að sunnanverðu var bifreiðinni á leið til suðurs ekið yfir á rangan vegarhelming og framan á bifreiðina, sem ekið var til norðurs. Tveir farþegar voru í fyrrnefndu bifreiðinni og einn í þeirri síðarnefndu. Báðir ökumennirnir og farþegar voru fluttir á slysadeild þar sem einn farþeginn var úrskurðaður látinn.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 6. júní. Kl. 16.52 var bifreið ekið á dreng á reiðhjóli á Tunguvegi. Drengurinn hafði hjólað áleiðis austur yfir götuna á gangbraut skammt norðan við Litlagerði þegar bifreiðinni var ekið suður götuna með fyrrgreindum afleiðingum. Ökumaðurinn var ökuréttindalaus. Pilturinn var fluttur á slysadeild. Kl. 21.16 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Breiðagerði og beygt áleiðis suður Grensásveg, og bifhjóli, sem var ekið norður Grensásveg. Bifhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.48 féll ökumaður bifhjóls af hjólinu þegar það lagðist á hliðina í hringtorgi Vesturlandsvegar og Korputorgsvegar. Bifhjólið hafði runnið til í fiskislori, sem var á akbrautinni. Ökumaðurinn leitaði aðhlynningar á slysadeild.

Þriðjudaginn 7. júní kl. 16.27 varð aftanákeyrsla á Hálsabraut til norðurs. Þar var bifreið ekið aftan á kyrrstæða bifreið. Ökumaðurinn hafði beðið eftir að geta beygt þar að heimkeyrslu. Hann var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 8. júní kl. 16 varð aftanákeyrsla á afrein Háaleitisbrautar að Miklubraut til vesturs. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 10. júní kl. 16.58 var hjólreiðamaður, sem hjólaði austur gangstétt sunnan Borgartúns og áfram til austurs áleiðis yfir gangbraut á Skúlatúni (Þórunnartúni), fyrir bifreið, sem ekið var norður Skúlatún. Hjólreiðarmaðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.

Frá vettvangi á Grensásvegi.

Frá vettvangi á Grensásvegi.