Frá vettvangi við Bústaðaveg.
27 Júní 2016 13:05

Í síðustu viku slösuðust sjö vegfarendur í jafnmörgum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 19. – 25. júní.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 19. júní. Kl. 13.59 féll hjólreiðamaður af hjóli sínu á Álftanesvegi við Bessastaðaveg eftir að hafa lent á hlið bifreiðar, sem ekið var austur götuna. Hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Og kl. 15.53 varð árekstur með bifreiðum á gatnamótum Hjallahrauns og Fjarðarhrauns. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 20. júní kl. 13.07 var bifreið ekið á stólpa og síðan á húsvegg á bifreiðastæði við Fjarðargötu. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild til skoðunar.

Þriðjudaginn 21. júní kl. 9.53 varð hjólreiðamaður á leið til austurs á malbikuðum göngustíg fyrir bifreið, sem ekið var til norðurs á malarstíg í Hljómskálagarðinum. Bifreiðin er notuð til að tæma ruslafötur í garðinum. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 22. júní. Kl. 16.16 varð árekstur með bifreið, sem ekið var vestur Bústaðaveg og beygt áleiðis suður Stjörnugróf, og bifreið, sem ekið var austur Bústaðaveg. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.05 féll kona af reiðhjóli í Ánanaustum er hún ætlaði að hjóla upp á gangstétt. Konan var flutt á slysadeild.

Laugardaginn 25. júní kl. 12.15 varð aftanákeyrsla á aðrein Reykjanesbrautar frá Stekkjarbakka. Ökumaður fremri bifreiðarinnar hafði stöðvað til að hleypa öndum yfir götuna. Hann leitaði sér aðhlynningar á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.

Frá vettvangi við Bústaðaveg.

Frá vettvangi við Bústaðaveg.