Frá vettvangi á Hafnarfjarðarvegi.
4 Júlí 2016 11:49

Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur og einn lést í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 26. júní – 2. júlí.

Sunnudaginn 26. júní kl. 14.44 varð barn á reiðhjóli fyrir bifreið á Digranesvegi við Bröttubrekku. Barnið var flutt á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 27. júní. Kl. 8.13 varð árekstur tveggja bifreiða í Suðurfelli. Bifreiðunum hafði verið ekið í gagnstæðar áttir þegar annarri þeirra var ekið yfir á rangan vegarhelming eftir að ökumaðurinn hafði hellt niður kaffi á milli sætanna. Ökumennirnir voru báðir fluttir á slysadeild. Kl. 13.54 var bifreið ekið norður Hafnarfjarðarveg og áleiðis yfir gatnamót Vífilsstaðavegar þar sem hún lenti á framhorni bifreiðar, sem ekið var vestur Vífilsstaðaveg. Eftir áreksturinn staðnæmdist bifreiðin á framhorni kyrrstæðrar bifreiðar á Hafnarfjarðarvegi handan gatnamótanna. Sú bifreið kastaðist síðan á þá fjórðu, kyrrstæða. Ökumaður fyrstnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.34 lenti drengur á reiðhjóli utan í bifreið, sem ekið var um Kleppsveg á móts við hús nr. 12. Drengurinn var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 29. júní kl. 20.31 varð árekstur með bifreið, sem ekið var austur Breiðholtsbraut, og bifreið, sem ekið var suður Stekkjarbakka. Ökumaður og farþegi fyrrnefndu bifreiðarinnar voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 2. júlí. Kl. 2.14 varð árekstur með bifreið, sem ekið var vestur Hringbraut og beygt áleiðis suður Birkimel, og bifreið, sem ekið var austur Hringbraut. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.38 var komið að karlmanni er lá undir miðdekki vörubifreiðar við Hraunbæ. Hreyfill bifreiðarinnar var ekki í gangi. Tildrög slyssins eru óljós. Maðurinn var úrskurðaður látinn á vettvangi.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.

Frá vettvangi á Hafnarfjarðarvegi.

Frá vettvangi á Hafnarfjarðarvegi.