Frá vettvangi á Reykjanesbraut.
13 Júlí 2016 11:47

Í síðustu viku slösuðust fjórtán vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 3. – 9. júlí.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 3. júlí. Kl. 11.49 var bifreið ekið norður Rauðarárstíg og beygt áleiðis vestur Laugaveg þar sem tveir gangandi vegfarendur á leið yfir götuna á gangbraut, urðu fyrir henni. Annar þeirra var fluttur á slysadeild. Kl. 15.17 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Reykjanesbraut við Bústaðaveg á leið til suðurs. Einn ökumaður og þrír farþegar bifreiðanna voru fluttir á slysadeild. Og kl. 19.16 varð kind fyrir bifhjóli á leið austur Þingvallaveg skammt austan Leirvogsvatns. Við áreksturinn kastaðist kindin í veg fyrir annan bifhjólamann er ók á eftir fyrrnefnda hjólinu. Við það féll ökumaðurinn af hjólinu. Hann var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 4. júlí kl. 15.18 varð árekstur með bifreið, sem ekið var austur Tryggvagötu og beygt áleiðis norður Naustin, og bifhjóli, sem ekið var austur Tryggvagötu, framúr bifreið vestan Naustanna og á hægri hlið bifreiðarinnar. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 6. júlí kl. 17.20 féll maður af reiðhjóli á Miðsölum við Salarveg. Hann var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 7. júlí. Kl. 12.40 þurfti bifhjólamaður að leggja hjól sitt á hliðina til þess að forðast aftanákeyrslu á leið vestur Breiðholtsbraut við Stöng. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 15.37 var bifreið með erlendu skráningarnúmeri ekið á mann, sem var á gangi að dælu 3 við Shell á Hagasmára. Bifreiðinni var síðan ekið á brott, en gangandi vegrafandinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.15 var bifreið ekið inn um glugga verslunar við Dalshraun 13. Svo virðist sem ökumaðurinn hafi óvart stigið á eldsneytisgjöf í stað hemlaheftils. Hann var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 8. júlí kl. 10.43 var flutningabifreið ekið aftan á kyrrstæða dráttarbifreið á Reykjanesbraut undir Breiðholtsbraut í þann mund er ökumaður dráttarbifreiðar var að búa sig undir að skipta um hjólbarða á fólksbifreið, sem stöðvuð hafði verið á akreininni. Ökumaður dráttarbifreiðarinnar og ökumaður flutningabifreiðarinnar voru fluttir á slysadeild.

Laugardaginn 9. júlí kl. 13.27 var bifreið ekið afrein frá Hádegismóum inn á Suðurlandsveg til norðurs þar sem henni var ekið yfir á rangan vegarhelming, á ljósstaur og velt utan vegar. Ökumaðurinn, sem taldi sig hafa „dottið“ út um stund var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.

Frá vettvangi á Reykjanesbraut.

Frá vettvangi á Reykjanesbraut.