Frá vettvangi á Vesturlandsvegi.
20 Júlí 2016 09:32

Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í jafnmörgum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 10. – 16. júlí.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 12. júlí. Kl. 14.10 hjólaði drengur fram af bakka frárennslisvatns úr niðurfallsröri nálagt Seljakirkju. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 20 féll hjólreiðamaður í hringtorgi Reynisvatnsvegar og Biskupsgötu eftir að hafa fipast á hjólinu. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.10 var bifreið ekið norður Stúfholt frá Skipholti, yfir graseyju og á vegg húss nr. 1. Ökumaður, sem sagðist hafa fallið í yfirlið áður en óhappið varð, var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 13. júlí kl. 1.57 var bifreið ekið á ljósastaur við Sæbraut milli Laugarness og Kirkjusands á leið til vesturs. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 14. júlí. Kl. 11.30 varð aftanákeyrsla á Vesturlandsvegi í Ártúnsbrekku til vesturs. Ökumaður aftari bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 14.10 hjólaði hjólreiðamaður vestur Breiðholtsbraut og á hlið kyrrstæðrar bifreiða á Stekkjarbakka á leið til suðurs. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 15. júlí kl. 1.37 var bifreið ekið vestur Hringbraut að Suðurgötu (Melatorgi) þar sem henni var ekið harkalega utan í kantstein. Farþegi í framsæti bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 16. júlí kl. 16.23 varð árekstur með bifreið, sem ekið var vestur Skúlagötu, og bifreið, sem ekið var austur götuna og beygt áleiðis að Sæbraut. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.

Frá vettvangi á Vesturlandsvegi.

Frá vettvangi á Vesturlandsvegi.