Frá vettvangi á Strandvegi í Grafarvogi.
4 Ágúst 2016 10:48

Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 24. – 30. júlí.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 25. júlí. Kl. 8.57 varð árekstur með bifreið, sem ekið var norður Grensásveg, og bifreið, sem ekið var austur Miklubraut. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar hafði verið að teygja sig í farsíma, sem hann hafi misst á gólfið skömmu áður en hann ók inn á gatnamótin – á móti rauðu ljósi. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 14.28 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Reykjanesbraut til norðurs við Lækjargötu. Rútubifreið var ekið aftan á sendibifreið, sem kastaðist aftan á bifreið framundan þar sem ökumaðurinn var að skipta um akrein. Ökumaður og farþegi í síðastnefndu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Og kl. 17.25 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Suðurlandsbraut á leið til austurs gegnt Nings. Fremsti ökumaðurinn hafði þurft að stöðva skyndilega. Ökumaður miðbifreiðarinnar náði einnig að stöðva, en þá kom sú þriðja og kastaði miðbifreiðinni aftan á þá fremstu. Farþegi í miðbifreiðinni leitaði sér læknisaðstoðar eftir óhappið.

Þriðjudaginn 26. júlí kl. 16.49 varð aftanákeyrsla á Strandvegi við Gufunesveg á leið til norðurs. Ástæðan mun hafa verið of stutt bil á milli ökutækja. Ökumaður fremri bifreiðarinnar leitaði sér læknisaðstoðar í framhaldinu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 27. júlí. Kl. 16.55 varð aftanákeyrsla í Víkurhvarfi við Vatnsendahvarf. Ökumaður fremri bifreiðarinnar, ófrískur, var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.50 féllu ökumaður og farþegi af vespu í Skipholti. Þeir voru fluttir á slysadeild. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 28. júlí. Kl. 13.35 lenti maður á reiðhjóli og maður á golfbíl saman þar sem göngustígar mætast í Hljómskálagarðinum. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.17 varð hjólreiðamaður, sem hjólaði suður gangstétt austan aðalbyggingar Háskóla Íslands, fyrir bifreið, sem ekið var frá starfsmannastæði til austurs sunnan byggingarinnar. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.

Frá vettvangi á Strandvegi í Grafarvogi.

Frá vettvangi á Strandvegi í Grafarvogi.