Frá vettvangi á Skúlagötu.
8 Ágúst 2016 18:48

Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 31. júlí – 6. ágúst.

Mánudaginn 1. ágúst kl. 2.25 féll kona af reiðhjóli á Snorrabraut er hún hjólaði á gangbrautarkant. Konan var flutt á slysadeild.

Þriðjudaginn 2. ágúst kl. 20.27 féll hjólreiðamaður af reiðhjóli á hjólastíg ofan Jaðars í Heiðmörk. Hann var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 3. ágúst kl. 6.10 var bifreið ekið út að aðrein Rafstöðvarvegar frá Vesturlandsvegi. Meintur ökumaður var fluttur á slysadeild í annarlegu ástandi.

Fimmtudaginn 4. ágúst kl. 17.53 var bifreið ekið á vegg við Skúlagötu 4. Ökumaðurinn hafði verið upptekinn af gulu ljósi í mælaborðinu þegar óhappið varð. Hann var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 5. ágúst kl. 10.49 varð árekstur með bifreið, sem ekið var norður Vatnsstíg, og bifreið, sem ekið var austur Lindargötu. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 6. ágúst. Kl. 1.57 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið, sem var ekið norður Lækjargötu gegnt Skólabrú. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.15 varð drengur á hlaupahjóli fyrir bifreið, sem ekið var frá húsi við Norðurtún. Hann var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.

Frá vettvangi á Skúlagötu.

Frá vettvangi á Skúlagötu.