15 Ágúst 2016 17:40
Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 7. – 13. ágúst.
Sunnudaginn 7. ágúst kl. 14.16 féll maður af reiðhjóli á göngustíg meðfram golfvellinum í Grafarholti. Maðurinn hafði reynt að nota handhemil með framangreindum afleiðingum. Hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 8. ágúst. Kl. 7.29 varð árekstur með bifreið, sem ekið var suður Reykjavíkurveg, og bifreið, sem ekið var vestur Hjallahraun. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar reyndist ökuréttindalaus. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar ætlaði að leita sér læknisaðstoðar vegna áverka eftir óhappið. Og kl. 20.32 varð árekstur með bifreið, sem ekið var austur Bústaðaveg, og bifreið, sem ekið var norður Kringlumýrarbraut með ætlaða akstursstefnu vestur Bústaðaveg. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 10. ágúst. Kl. 8.54 varð hjólareiðamaður, sem hjólaði suður eystri gangstétt Fjallkonuvegar, fyrir bifreið, sem ekið var vestur Logafold og beygt áleiðis norður Fjallkonuveg. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 16.35 stöðvaði ökumaður bifreið sína í Litlagerði, sté út, lokaði á eftir sér og ætlaði síðan að sækja barn, sem var í aftursætinu. Í því byrjaði bifreiðin að renna hægt aftur á bak, „ökumaðurinn“ náði að grípa í hana, en náði ekki að stöðva. Hann dróst á eftir bifreiðinni u.þ.b. 40 metra, yfir Tunguveg og stöðvaðist á brunahana handan hans. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.03 valt bifreið við Suðurlandsveg gegnt Rauðavatni. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunarakstur, var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 12. ágúst. Kl. 14.50 var vespu ekið á hægra afturhorn bifreiðar skammt vestan gatnamóta Breiðholtsbrautar og Vatnsendahvarfs. Ökumaður vespunnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.04 var bifreið ekið austur Hringbraut, yfir umferðareyju og í gegnum girðingu skammt austan Melatorgs og framan á bifreið, sem ekið var vestur götuna. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.