Frá vettvangi við Kringlumýrarbraut.
31 Ágúst 2016 11:07

Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 21. – 27. ágúst.

Sunnudaginn 21. ágúst kl. 15.12 varð aftanákeyrsla þriggja bifreiða á Breiðholtsbraut við Brekknaás til suðurs. Ökumaður og farþegi í fremstu bifreiðinni ætluðu að leita sér læknisaðstoðar á slysadeild efttir óhappið.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 22. ágúst. Kl. 12.55 var bifreið ekið vestur Nýbýlaveg, utan í vegrið norðan vegarins og síðan þvert yfir götuna uns hún stöðvaðist þar á steyptum vegg. Ökumaðurinn, ófrísk kona, taldi að stýrisbúnaður bifreiðarinnar hefði bilað. Hún var flutt á slysadeild. Og kl. 18.45 var bifreið ekið norður Vatnsstíg og hjólreiðamaður var á ferð austur Hverfisgötu. Þegar aðilar mættust á gatnamótunum hemlaði hjólreiðamaðurinn með þeim afleiðingum að hann féll af hjólinu og lenti með höfuðið undir bifreiðinni kyrrstæðri. Hjólreiðamaðurinn ætlaði sjálfur að leita sér aðstoðar á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 23. ágúst. Kl. 8.05 varð aftanákeyrsla á Kringlumýrarbraut sunnan Listabrautar á leið til norðurs. Ökumaður aftari bifreiðarinnar hafði litið útundan sér skömmu áður en óhappið varð. Ökumaður fremri bifreiðarinnar ætlaði í framhaldinu að leita aðhlynningar á slysadeild. Og kl. 22.23 varð aftanákeyrsla í FH-torgi við Flatahraun. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 24. ágúst. Kl. 17.03 var bifreið ekið norður Reykjanesbraut. Nálægt afrennsli frá Vallahverfinu beygði ökumaðurinn til hægri til að koma í veg fyrir að lenda á nær kyrrstæðum bifreiðum á akbrautinni framundan og missti síðan stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að bifreiðin valt tvær eða þrjár veltur. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.24 var mótorkrosshjóli ekið á stein í Gerplustræti. Ökumaðurinn, sem við það féll af hjólinu, var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 25. ágúst kl. 15.14 varð fjögurra bifreiða aftanákeyrsla á Miklubraut á leið til austurs vestan Grensásvegar. Farþegi í einni bifreiðinni var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 26. ágúst. Kl. 0.38 var bifreið ekið á ljósastaur við Norðurfell gegnt Æsufelli. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunarakstur, var fluttur á slysadeild. Og kl. 13.33 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Hjallabraut og beygt áleiðis norður Reykjavíkurveg, og bifreið, sem var ekið norður Reykjavíkurveg, gegnt rauðu ljósi. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.

Frá vettvangi við Kringlumýrarbraut.

Frá vettvangi við Kringlumýrarbraut.