Frá vettvangi á Reykjanesbraut í Hafnarfirði.
12 September 2016 16:48

Í síðustu viku slösuðust fimmtán vegfarendur í ellefu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 4. – 10. september.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 4. september. Kl. 1.58 var bifreið ekið suður Nóatún og framan á kyrrstæða bifreið á bifreiðastæði við götuna. Við áreksturinn valt fyrrnefnda bifreiðin. Ökumaðurinn, sem grunaður er um ölvunarakstur, var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.14 varð aftanákeyrsla á Lækjargötu við Hlíðartorg til suðurs. Ökumaður aftari bifreiðarinnar er grunaður um ölvun við akstur. Ökumaður og farþegi fremri bifreiðarinnar voru fluttir á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 6. september. Kl. 8.11 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut. Þegar bifreiðinni var beygt inn á aðrein að Arnarnesvegi lenti hún á skilti, sem þar var við gatnamótin. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 18.30 valt vörubifreið á Ásavegi við Þingvallaveg þegar henni var ekið fullhlaðinni í halla. Ökumaðurinn fór sjálfur á slysadeild. Og kl. 19.22 féll ökumaður af bifhjóli þar sem því var ekið austur Fjarðarhraun. Ökumaðurinn ætlaði sjálfur að leita sér aðstoðar á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 8. september. Kl. 18.35 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Frakkastíg, og rafmagnsvespu, sem var ekið austur Laugaveg, gegnt einstefnu. Ökumaður vespunnar var fluttur á slysadeild. Kl. 19.17 var bifreið ekið norður Reykjanesbraut. Rétt eftir að bifreiðinni var ekið út úr Hlíðartorgi missti ökumaðurinn bifreiðina til hægri og lenti á grjóthleðslu við veginn. Við það valt bifreiðin eina veltu áður en hún stöðvaðist á hjólunum. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 20.51 var bifreið ekið á ljósastaur við Arnarbakka. Ökumaðurinn, sem hafði verið að teygja sig eftir farsímanum, sem hann hafði misst á gólfið, var fluttur á slysadeild ásamt farþega.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 9. september. Kl. 16.12 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Reykjanesbraut á móts við Hótel Velli á leið til vesturs. Ökumaður fremstu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild, auk þess sem ökumaður og farþegi í miðbifreiðinni ætluðu að leita sér aðstoðar slysadeildar vegna hálsmeiðsla. Og kl. 18.39 var bifreið ekið á ljósastaur á aðrein inn á Reykjanesbraut til suðurs eftir að hafa verið ekið í poll á götunni. Ökumaðurinn ætlaði að leita sér aðstoðar á slysadeild.

Laugardaginn 10. september kl. 13.39 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið, sem var ekið frá Hádegismóum til vesturs að hringtorginu við Bæjarháls. Hinn gangandi var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.

Frá vettvangi á Reykjanesbraut í Hafnarfirði.

Frá vettvangi á Reykjanesbraut í Hafnarfirði.