Frá vettvangi á gatnamótum Höfðabakka og Stekkjarbakka.
19 September 2016 15:37

Í síðustu viku slösuðust tuttugu vegfarendur í átján umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 11. – 17. september.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 11. september. Kl. 8.15 féll hjólreiðamaður af hjólinu í Tryggvagötu. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 9.36 féll hjólreiðamaður af hjóli sínu á Sæbraut á móts við Borgartún til austurs eftir að hafa lent á öðrum hjólreiðamanni. Sá fyrrnefndi var fluttur á slysadeild. Kl. 13:20 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Tunguveg og beygt áleiðis vestur Sogaveg, og bifreið, sem var ekið suður Tunguveg. Ökumaður og farþegi í fyrrnefndu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Og kl. 20.28 varð hjólreiðamaður fyrir bifreið við gatnamót Nesvegar og Skerjavegar. Bifreiðinni var ekið um Skerjabraut áleiðis inn á Nesveg þegar hjólreiðamaðurinn á leið norður veginn lenti á henni. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 12. september. Kl. 9.53 lenti maður, sem var að vinna við malbikunarframkvæmdir á Nýbýlavegi við Kársnesbraut, utan í hópferðabifreið, sem ekið var um götuna. Önnur akbrautin var lokuð vegna framkvæmdanna. Ökumaður hópferðarbifreiðarinnar stöðvaði ekki þegar óhappið varð. Maðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.21 var bifreið ekið vestur Skeiðholt og á ljósastaur við götuna eftir að dýr hafði hlaupið í veg fyrir hana. Ökumaðurinn leitaði sér sjálfur aðstoðar slysadeildar.

Þriðjudaginn 13. september kl. 16.33 var hjólreiðamaður, sem hjólaði suður gangstíg meðfram Háaleitisbraut og beygði áleiðis austur Fossvogsveg, fyrir bifreið, sem var ekið vestur Fossvogsveg. Gangstígurinn endar þarna við gatnamótin, auk þess sem gróður hindrar útsýni vegfarenda á horninu. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 14. september. Kl. 5.43 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Stekkjarbakka og beygt til vinstri á gatnamótum Höfðabakka, og bifreið, sem var ekið suður Höfðabakka. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 8.25 lenti hjólreiðamaður, sem hjólaði vestur Hörgshlíð, á bifreið, sem var ekið um götuna og beygt áleiðis að innkeyrslu við eitt húsið. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 15.50 varð fjögurra bifreiða aftanákeyrsla á Háaleitisbraut við Bústaðaveg. Ökumaður einnar bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.24 varð aftanákeyrsla í hringtorgi við Ánanaust. Bifreiðunum hafði verið ekið norður Hringbraut áður en óhappið varð. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 15. september kl. 7.52 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Suðurhellu og beygt áleiðis austur Hraunhellu, og bifreið, sem ekið var austur Hraunhellu. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 16. september. Kl. 13.39 slasaðist hjólreiðamaður, sem hjólað hafði vestur Bankastræti og áfram vestur Austurstræti er hann rann til í bleytu og lenti á steyptum brunni. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 15.15 var bifreið ekið út af rampi við Hverfisgötu skammt vestan Snorrabrautar og áleiðis út á götuna þegar hjólreiðamaður, sem hjólaði austur reiðhjólastíg við hana, lenti á bifreiðinni. Hann leitaði sér sjálfur aðstoðar á slysadeild. Kl. 18:43 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Suðurlandsbraut og beygt áleiðis suður Hallarmúla, og bifreið, sem var ekið austur Suðurlandsbraut. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.15 var bifreið ekið aftan á aðra á Akurbraut er hafði stöðvað á brautinni til að hleypa út farþega. Ökumaður fremri bifreiðarinnar leitaði sér aðstoðar á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 17. september. Kl. 17.16 lenti stúlka, sem var á leið yfir gangbraut á Flatahrauni á móts við lögreglustöðina, fyrir bifreið, sem ekið var vestur götuna. Stúlkan var flutt á slysadeild. Og kl. 22.22 lentu sjö bifreiðar í þremur aðskildum atfanákeyrslum á svipuðum tíma á Miklubraut gegnt Skeifunni. Tveir ökumannanna leituðu sér aðstoðar á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.

Frá vettvangi á gatnamótum Höfðabakka og Stekkjarbakka.

Frá vettvangi á gatnamótum Höfðabakka og Stekkjarbakka.