10 Október 2016 14:43
Í síðustu viku slösuðust átján vegfarendur í tólf umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 2. – 8. október.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 2. október. Kl. 19.46 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Lækjargötu og beygt áleiðis austur Amtmannsstíg, og bifreið, sem var ekið norður Lækjargötu. Síðarnefnda bifreiðin lenti með vinstra framhornið á hægri hlið þeirrar fyrrnefndu. Ökumaður og farþegi í henni ætluðu að leita sér aðstoðar á slysadeild í framhaldinu. Og kl. 22.07 rann bifreið aftur á bak og lenti á annarri mannlausri á bifreiðastæði við Hátún 14. Fyrrnefnda bifreiðin var útbúin fyrir akstur fatlaðra og hafði ökumaðurinn rekið sig í drifstöng er hann ætlað að stíga inn í hana með þeim afleiðingum að hann féll út og bifreiðin rann af stað með framangreindum afleiðingum. „Ökumaðurinn“ var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 4. október. Kl. 19.31 var sex ára barn á reiðhjóli á gangbraut yfir Þrastarhöfða fyrir bifreið. Barnið var flutt á slysadeild. Og kl. 19.44 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Fífuhvammsveg og beygt áleiðis til norðurs að frárein að Hafnarfjarðarvegi, og bifreið, sem var ekið Fífuhvammsveg. Ökumaður og farþegi úr síðarnefndu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Þá ætluðu bæði ökumaður og farþegi fyrrnefndu bifreiðarinnar að leita sér aðstoðar þar vegna meiðsla er þeir hlutu.
Miðvikudaginn 5. október kl. 9.47 var bifreið ekið á umferðarskilti við Miklubraut skammt austan Kringlumýrarbrautar á leið til austurs. Ökumaðurinn hafði verið að seilast eftir kveikjara. Hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 6. október. Kl. 9.29 lenti drengur á reiðhjóli er var á leið frá Urðarbraut áleiðis yfir Hæðarbraut á hlið bifreiðar, sem var ekið um götuna. Ökumaðurinn, kona á fimmtugsaldri, ók drengum heim til hans og hvarf síðan á braut. Drengurinn leitaði sér læknisaðstoðar í framhaldinu. Og kl. 20.26 féll ölvaður gangandi vegfarandi á gangstétt við Depluhóla utan í hlið bifreiðar, sem var ekið um götuna. Gangandi vegfarandinn var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 7. október. Kl. 7.51 féll hjólreiðamaður af reiðhjólinu á gangstíg í Elliðaárdal neðan við stífluna. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 14.08 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Kringlumýrarbraut og beygt áleiðis vestur Hamrahlíð, og bifreið, sem var ekið suður Kringlumýrarbraut, gegnt rauðu ljósi. Síðarnefnda bifreiðin staðnæmdist á grindverki á eyju milli akbrautanna. Ökumaðurinnn var fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar ætlaði einnig að leita sér aðstoðar á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 8. október. Kl. 5.09 lenti hjólreiðamaður fyrir bifreið á Vitastíg við Skúlagötu. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 14.27 varð hjólreiðamaður, á leið suður eftir gangbraut á Laugavegi gegnt húsi nr. 176, fyrir bifreið, sem var ekið vestur götuna. Hjólreiðamaðurinn ætlaði í framhaldinu að leita sér aðstoðar á slysadeild. Og kl. 15.34 var bifreið ekið á bæjarhlið Seltjarnarnesbæjar við Nesveg. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.