24 Október 2016 09:49
Í síðustu viku slösuðust sautján vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 16. – 22. október.
Sunnudaginn 16. október kl. 20.25 var ekið á hjólreiðamann á Strandgötu við gamla Slippinn. Hann var fluttur á slysadeild.
Mánudaginn 17. október kl. 12.47 lenti lögreglubifhjól, sem var ekið í forgangsakstri norður Reykjanesbraut á vestari akbrautinni gegnt kirkjugarðinum í Hafnarfirði, á hlið bifreiðar, sem beygt var þar af eystri akbrautinni. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 18. október. Kl. 12.48 féll piltur af vespu í Hverafold við Gullöldina. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.23 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Laugaveg, og bifreið, sem var ekið frá Hátúni til suðurs. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Miðvikudaginn 19. október kl. 20.18 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Breiðholtsbraut, og bifreið, sem var ekið suður Suðurfell. Ökumaður og farþegi í síðarnefndu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 20. október. Kl. 13.56 var bifreið ekið aftan á aðra í Stekkjarbakka við Hamrastekk. Ökumaður og tveir farþegar úr fremri bifreiðinni, og ökumaður og farþegi í þeirri aftari, voru fluttir á slysadeild. Og kl. 15.07 var bifreið ekið um Nýbýlaveg og á mannlausa bifreið á bifreiðastæði við American Style. Ökumaðurinn fór út til að skoða skemmdir, en þegar hann ætlaði inn í bifreiðina aftur rann hún af stað aftur á bak með þeim afleiðingum að „ökumaðurinn“ varð undir vinstra framhjóli hennar. Hann var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 21. október kl. 16.58 varð aftanákeyrsla í Skútuvogi til norðurs norðan Kleppsmýrarvegar. Ökumaður og farþegi í fremri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 22. október. Kl. 11.15 meiddist farþegi á vespu á Engjavegi gegnt Húsdýragarðinum þegar hann og ökumaðurinn féllu af hjólinu. Farþeginn var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.21 varð hjólreiðamaður undir strætisvagni á Gömlu Hringbraut við Snorrabraut. Óhappið varð þegar vagninum var beygt áleiðis inn á síðarnefndu götuna. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.