1 Nóvember 2016 10:18
Í síðustu viku slösuðust þrjátíu vegfarendur í ellefu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 23. – 30. október.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 23. október. Kl. 12.56 var bifreið ekið aftur á bak á bifreiðastæði við Bónus í Þverholti og á mannlausa bifreið þegar eigandinn var að setja varning í aftursætið. Hann meiddist við áreksturinn og var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.41 varð árekstur með bifreið, sem var ekið suður Reykjavíkurveg, og bifreið, sem var ekið vestur Hjallabraut. Báðir ökumennirnir og farþegar úr sitt hvorri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.
Mánudaginn 24. október 9.04 varð hjólreiðamaður á leið vestur yfir Digranesveg við Dalveg fyrir bifreið, sem var ekið suður götuna. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 25. október. Kl. 10.18 fór hópbifreið út af Þingvallavegi við Bugðu á leið til austurs og valt yfir á hægri hlið áður en hún stöðvaðist. Fjörutíu og tveir voru í bifreiðinni, þar af fjörutíu erlendir ferðamenn, ökumaður og leiðsögumaður. Sautján farþegar voru fluttir á Landspítalann. Aðrir, sem voru rútunni, tuttugu og fimm talsins, voru fluttir í fjöldahjálparstöð Rauða krossins í Mosfellsbæ. Og kl. 14.10 féll drengur af vespu er hann var á leið til vesturs á gangbraut yfir Reykjavíkurveg sunnan Flatahrauns. Drengurinn var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 26. október. Kl. 7.57 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið á Stórhöfða við Viðarhöfða. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 12.39 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið á Borgarholtsbraut. Bifreiðinni var ekið vestur götuna er gangandi vegfarandinn gekk til suðurs á gangbraut yfir götuna gegnt húsi nr. 7. Hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 27. október. Kl. 8.05 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið við gatnamót Langholtsvegar og Skeiðarvogs. Bifreiðinni var ekið vestur Skeiðarvog og beygt áleiðis suður Langholtsveg. Gangandi vegfarandinn gekk á gangbraut til norðurs yfir Langholtsveg sunnan gatnamótanna. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 12.19 var bifreið ekið norður Kringlumýrarbraut og á milli tveggja kyrrstæðra bifreiða við gatnamót Hamrahlíðar. Ástæðan var sú að hemlar bifreiðarinnar virkuðu ekki sem skyldi áður en óhappið varð. Annar ökumannanna kyrrstæðu bifreiðanna var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 29. október. Kl. 4.30 var bifreið ekið um Auðbrekku. Í hringtorgi á Nýbýlavegi missti ökumaður stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún hafnaði á vegriði og ljósastaur gegnt Lundi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.15 valt bifreið út af Vesturlandsvegi í Kollafirði á leið til norðurs. Ökumaðurinn hafði litið stutta stund af veginum en þegar hann hafði tekið eftir því að dregið hafði verulega úr hraða bifreiðar framundan hafi hann beygt undan með framangreindum afleiðingum. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.