5 Desember 2016 12:45
Í síðustu viku slösuðust fjórtán vegfarendur í ellefu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 27. nóvember – 3. desember.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 28. nóvember. Kl. 8.03 varð hjólreiðamaður fyrir bifreið á Breiðvangi við Hjallabraut. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 8.41 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið á Sóleyjargötu við Bragagötu. Umferðarljós eru við gatnamótin. Gangandi vegarandinn var fluttur á slysadeild. Kl. 14.11 var bifreið ekið suður Fellaveg. Við brú gegnt Úlfarsfelli missti ökumaðurinn stjórn á bifreiðinni í hálku með þeim afleiðingum að hún fór út af veginum og valt eina eða tvær veltur. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.20 varð aftanákeyrsla á Kringlumýrarbraut í Fossvogi á leið til norðurs. Ökumaður og farþegi í fremri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 30. nóvember. Kl. 15.34 varð aftanákeyrsla á Hafnarfjarðarvegi norðan Álftanesvegar. Ökumaður aftari bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.47 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Miklubraut, og bifreið, sem var ekið norður Grensásveg. Eftir áreksturinn kastaðist fyrrnefnda bifreiðin á aðra á gatnamótunum, sem kastaðist síðan á þá síðarnefndu og stöðvaðist loks á umferðarljósavita. Ökumaður miðbifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 1. desember kl. 15.11 var bifreið ekið aftur á bak úr stæði á Laugavegi gegnt húsi nr. 77 og á hurð kyrrstæðrar bifreiðar í því er farþegi var að setjast inn í hana. Hann klemmdist á fótum og var í framhaldinu ekið á slysadeild til skoðunar.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 2. desember. Kl. 8.25 varð drengur fyrir bifreið á Langholtsvegi við Álfheima. Bifreiðinni var ekið norður Langholtsveg og drengurinn var á leið til vesturs yfir götuna á gangbraut. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 16.29 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Vesturlandsvegi í Ártúnsbrekku. Ökumaður einnar bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 16.49 var bifreið ekið norður Kringlumýrarbraut, yfir á rangan vegarhelming við Bústaðavegsbrú og framan á bifreið, sem var ekið suður Kringlumýrarbraut. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar virðist hafa liðið út af skömmu fyrir óhappið. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 20.36 var léttu bifhjóli ekið á hlið bifreiðar þar sem henni var ekið vestur Breiðholtsbraut og beygt áleiðis suður Reykjanesbraut. Ökumaður og farþegi á bifhjólinu voru fluttir á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.