Frá vettvangi við JL-húsið.
12 Desember 2016 11:12

Í síðustu viku slösuðust sjö vegfarendur í jafnmörgum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 4. – 10. desember.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 5. desember. Kl. 8.59 varð hjólreiðamaður fyrir bifreið í Stórholti við Skipholt. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.40 varð ung stúlka fyrir bifreið, sem var ekið vestur Fjallkonuveg skammt austan Funafoldar. Stúlkan hafði hlaupið framundan afturhorni kyrrstæðs strætisvagns á biðstöð við götuna. Hún var flutt á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 6. desember. Kl. 13.02 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið, sem var ekið norður Kringlumýrarbraut og áfram yfir gatnamót Hamrahlíðar. Gangandi vegfarandinn, sem var á leið vestur yfir götuna þegar óhappið varð, var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.35 varð árekstur með bifreið, sem var ekið til norðurs frá bifreiðastæði við JL-húsið og út á Eiðisgranda, og bifreið, sem var ekið austur götuna. Farþegi í síðarnefndu bifreiðinni leitað sér aðstoðar á slysadeild.

Miðvikudaginn 7. desember kl. 7.32 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið í Norðurfelli við Fannarfell. Hann var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 8. desember kl. 17.34 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Vesturlandsvegi til austurs við Korputorg. Ökumaður einnar bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 9. desember kl. 12.20 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Vesturlandsveg, beygt í U-beygju gegnt Lágafelli og framan á bifreið, sem ekið hafði verið á eftir henni. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.

Frá vettvangi við JL-húsið.

Frá vettvangi við JL-húsið.