Frá vettvangi við Kleppsmýrarveg.
19 Desember 2016 15:13

Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 11. – 17. desember.

Mánudaginn 12. desember kl. 8 var strætisvagni ekið yfir rist á gangandi vegfaranda í Mjódd. Hann leitaði sér aðstoðar á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 14. desember. Kl. 17.46 var bifreið ekið vestur Kársnesveg og beygt austur Naustavör þar sem gangandi vegfarandi, á leið til austurs yfir götuna, varð fyrir henni. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.12 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið á Fjarðarhrauni við Hjallahraun. Hann var fluttur á slysadeild.

Fimm umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 15. desember. kl. 2.08 var bifreið ekið á ljósastaur við gatnamót Strandvegar og Hallsvegar. Farþegi í bifreiðinni leitaði sér aðstoðar á slysadeild. Kl. 10.24 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið við gatnamót Sæbrautar og Súðarvogar. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 16.34 varð árekstur með bifreið, sem var ekið suður Skútuvog, áleiðis yfir Kleppsmýrarveg, og bifreið, sem var ekið norður Skútuvog og beygt norður Kleppsmýrarveg. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Kl. 17.01 varð aftanákeyrsla á Reykjanesbraut við Kvistaberg. Ökumaður fremri bifreiðarinnar ætlaði sjálfur að leita sér aðstoðar á slysadeild. Og kl. 17.56 varð aftanákeyrsla á Reykjanesbraut gegnt IKEA. Ökumaður og farþegi í fremri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Laugardaginn 17. desember kl. 13.32 var bifreið ekið á gám á athafnasvæði Sorpu við Dalveg. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.

Frá vettvangi við Kleppsmýrarveg.

Frá vettvangi við Kleppsmýrarveg.