Frá vettvangi á Strandgötu.
27 Desember 2016 16:49

Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 18. – 24. desember.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 20. desember. Kl. 10.18 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Mýrargötu, og bifreið, sem var ekið austur Strandgötu. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 17.20 féll hjólreiðamaður af hjóli sínu neðst á göngubrúnni við gatnamót Hringbrautar og Njarðargötu. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.17 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Digranesveg, og bifreið, sem var ekið frá Hlíðarhjalla. Ökumaður og farþegi í annarri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 21. desember. Kl. 15.32 varð þriggja bifreiða árekstur á Stekkjarbakka gegn Nettó. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild. Kl. 15.48 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið á Hagasmára við Smáralind. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.58 var bifreið ekið austur Dalveg og framan á bifreið, sem ekið var vestur veginn gegnt Hlíðarhjalla. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 22. desember 10.22 var bifreið ekið norður Reykjanesbraut. Við aðrein að Kauptúni missti ökumaður stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún lenti þar á ljósastaur. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 23. desember kl. 16.30 varð drengur á leið til norðurs yfir Fákafen fyrir bifreið, sem var ekið vestur götuna skammt vestan hringtorgsins við Skeiðarvog. Hann var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 24. desember kl. 5.24 var bifreið ekið á ljósastaur á Suðurlandsvegi við Rauðavatn. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.

Frá vettvangi á Strandgötu.

Frá vettvangi á Strandgötu.