Frá vettvangi á mótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar.
9 Janúar 2017 11:18

Í síðustu viku slösuðust nítján vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 1. – 7. janúar.

Sunnudaginn 1. janúar kl. 23.17 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Grensásveg, og bifreið, sem var ekið norður Fellsmúla. Við áreksturinn snerist fyrrnefnda bifreiðin og lenti á umferðarljósavita. Báðir ökumennirnir og þrír farþegar voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 2. janúar. Kl. 14.49 var bifreið ekið um Korpúlfsstaðaveg þegar leið yfir ökumanninn um stund með þeim afleiðingum að bifreiðin straukst við ljósastaur áður en hann náði að stöðva. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.18 varð gangandi vegfarandi á leið suður yfir Miklubraut austan Reykjahlíðar fyrir bifreið, sem var ekið austur Miklubraut. Gangandi vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 3. janúar kl. 21.22 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Reykjanesbraut, og bifreið, sem var ekið vestur Reykjanesbraut og beygt suður Krýsuvíkurveg. Ökumaður og farþegi síðarnefndu bifreiðarinnar voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 4. janúar. Kl. 15.21 féll hjólreiðamaður á leið til vesturs niður brekku norðaustan Kringlumýrarbrautar og Bústaðavegar. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.28 var flutningabifreið, hlaðin gaskútum, ekið aftan á kyrrstæða bifreið á Reykjanesbraut skammt austan Vörðubergs. Við áreksturinn kastaðist síðarnefnda bifreiðin aftan á aðra kyrrstæða bifreið, sem kastaðist áfram aftan á þá fjórðu. Þrír ökumannanna og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 5. janúar. Kl. 0.55 var bifreið ekið suður Sæbraut og á ljósastaur við frárein að Vesturlandsvegi. Farþegi var fluttur á slysadeild. Og kl. 9.17 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Reykjanesbraut og beygt vestur Bústaðaveg, og bifreið, sem var ekið suður Reykjanesbraut. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 6. janúar. Kl. 8.18 var bakkað á gangandi vegfaranda við Digranesveg 1. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.39 var bifreið ekið austur Engihjalla og beygt áleiðis norður Nýbýlaveg þar sem gangandi vegfarandi varð fyrir bifreiðinni. Hann var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.

Frá vettvangi á mótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar.

Frá vettvangi á mótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar.