30 Janúar 2017 13:03
Í síðustu viku slösuðust fjórtán vegfarendur í ellefu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 22. – 28. janúar.
Mánudaginn 23. janúar kl. 22.52 var bifreið ekið suður Hafnarfjarðarveg og síðan þvert á aðrein Arnarnesvegar þar sem bifreiðin valt nokkrar veltur áður en hún stöðvaðist á hjólunum. Ökumaður, sem er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna- og áfengis, auk þess að vera sviptur ökuréttindum, var ásamt farþega fluttir á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 24. janúar. Kl. 10.25 varð gangandi vegfarandi á leið til austurs yfir Nauthólsveg við Flugvallaveg fyrir bifreið, sem ekið var suður götuna. Ökumaðurinn ók hinum slasaða sjálfur á slysadeild. Kl. 17.50 varð aftanákeyrsla á Hringbraut gegnt húsi nr. 55 á austurleið. Ökumanni og farþega í aftari bifreiðinni var ekið á slysadeild til skoðunar. Og kl. 18.40 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Sæbraut, og bifreið, sem var ekið vestur strætórein til vesturs og beygt til norðurs inn á Sæbraut. Fyrrnefnda bifreiðin lenti utan í handriði á miðeyju götunnar eftir óhappið. Ökumanni síðarnefndu bifreiðarinnar var ekið á slysadeild til skoðunar.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 25. janúar. Kl. 8.21 varð gangandi vegfarandi á leið suður yfir Suðurfell á gangbraut gegnt Hólabrekkuskóla fyrir bifreið, sem var ekið austur götuna. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 16.14 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið í Ármúla gegnt húsi nr. 32. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 17.44 varð gangandi vegfarandi á leið til suðurs yfir Laugaveg fyrir bifreið, sem var ekið suður Nóatún og beygt áleiðis austur Laugaveg. Gangandi vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.46 varð árekstur með strætisvagni og fólksbifreið á gatnamótum Gömlu Hringbrautar/Bústaðavegar/Snorrabrautar. Ökumaður fólksbifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 27. janúar. Kl. 3.13 var bifreið ekið aftan á kyrrstæða bifreið í vegkanti Vesturlandsvegar við Mógilsá. Skyggni var mjög slæmt. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og 7.20 var bifreið ekið austur Suðurlandsveg austan Lögbergsbrekku er hún lenti utan vegar og valt heila veltu. Tveir farþegar voru fluttir á slysadeild.
Laugardaginn 28. janúar kl. 7.50 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Reykjanesbraut, og bifreið, sem var ekið afrein Bæjarlindar og inn á Reykjanesbraut til norðurs. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.