Frá vettvangi á Fjarðarhrauni.
16 Janúar 2017 08:07

Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 8. – 14. janúar.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 9. janúar. Kl. 7.06 varð árekstur með strætisvagni, sem var ekið vestur Stekkjarbakka og beygt áleiðis til suðurs við Mjódd, og fólksbifreið, sem var ekið austur götuna. Ökumaður bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 8.11 var bifreið ekið vestur Reykjanesbraut. Gegnt Ásvöllum var henni ekið yfir á rangan vegarhelming þar sem hún lenti utan í hlið bifreiðar, sem var ekið austur brautina, sneri henni yfir á rangan vegarhelming og síðan á framhorni bifreiðar er ekið hafði verið á eftir þeirri bifreið. Á sama tíma lenti fjórða bifreiðinn á leið til vesturs framan á bifreiðinni, sem snúist hafði. Ökumaður fyrstnefndu bifreiðarinnar er grunaður um ölvunarakstur. Hann, ásamt ökumanni og farþega úr síðastnefndu bifreiðinni, var fluttir á slysadeild. Og kl. 9.37 varð drengur fyrir bifreið á Digranesvegi við afrein að Hafnarfjarðarvegi. Slæm lýsing er við gangbrautina. Drengurinn var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 10. janúar. Kl. 1.14 var bifreið ekið austur Breiðholtsbraut, beygt áleiðis suður frárein að Reykjanesbraut til suðurs og á ljósastaur. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Kl. 12.45 varð hjólreiðamaður, sem hjólaði norður Holtaveg og ætlaði yfir Langholtsveg, fyrir bifreið sem var ekið suður Holtaveg og beygt áleiðis austur Langholtsveg. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.25 var bifreið ekið norður Fjarðarhraun, yfir gatnamót Hólshrauns og framan á bifreið, sem var ekið suður Fjarðarhraun á beygjuakrein að Hólshrauni. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar virtist eiga við veikindi að stríða. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 13. janúar. Kl. 7 var bifreið ekið vestur Vesturlandsveg (staðsetning ekki nánar tilgreind) á hægri akrein og beygt til vinstri útaf veginum þar sem bifreiðin lenti utan í vegriði og stöðvaðist. Ökumaðurinn, sem virtist eitthvað utan við sig, var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.22 varð gangandi vegfarandi á leið vestur yfir Lækjargötu við Bankastræti, fyrir bifreið, sem var ekið norður götuna. Gangandi vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.

Frá vettvangi á Fjarðarhrauni.