Frá vettvangi á Reykjanesbraut.
7 Febrúar 2017 14:57

Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur í fjórum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 29. janúar – 4. febrúar.

Sunnudaginn 29. janúar kl. 0.20 var bifreið ekið suður Hafnarfjarðarveg og á vegrið, fyrst vinstra megin vegarins og síðan hægra megin þar sem hún stöðvaðist nálægt Kópavogslæk. Ökumaðurinn hafði fipast vegna glæfralegrar akreinaskiptingar annarrar bifreiðar. Hann, ásamt fjórum farþegum, var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 30. janúar kl. 14.29 var bifreið ekið austur Reykjanesbraut vestan Hamrabergs og aftan á kyrrstæða bifreið við gatnamótin, sem kastaðist áfram og aftan á kyrrstæða bifreið framan hennar. Ökumaður öftustu bifreiðarinnar hafði verið að senda SMS-skilaboð í farsímann sinn áður en óhappið varð. Ökumaður miðbifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 31. janúar kl. 14.37 varð gangandi vegfarandi á leið vetur yfir Sæbraut sunnan Sægarða fyrir bifreið, sem var ekið suður Sæbraut. Hann var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 4. febrúar kl. 1.54 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Miklubraut og beygt suður Kringlumýrarbraut, og bifreið, sem var ekið austur Miklubraut. Báðir ökumennirnir og farþegi í síðarnefndu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.

Frá vettvangi á Reykjanesbraut.