Frá vettvangi í Ártúnsbrekku.
20 Febrúar 2017 11:16

Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 12. – 18. febrúar.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 14. febrúar. Kl. 8.59 varð árekstur með bifreið og lyftara á athafnasvæði við Kjalarvog 21. Ökumaður bifreiðarinnar leitað sér sjálfur aðstoðar á slysadeild. Og kl. 22.21 var bifreið ekið austur Miklubraut í Ártúnsbrekku á nyrstu akreininni og aftan á bifreið, sem var ekið á undan henni og beygt af miðakrein. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 15. febrúar kl. 20.36 varð aftanákeyrsla á Reykjavíkurvegi við Hverfisgötu. Ökumaður aftari bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 17. febrúar. Kl. 14.12 varð árekstur með bifreiðum, sem var ekið um Reykjanesbraut gegnt Tjarnarvöllum í gagnstæðar áttir. Bifreiðinni, sem var ekið til norðurs, mun hafa verið ekið yfir á rangan vegarhelming. Tveir farþegar i þeirri bifreið voru fluttir á slysadeild. Kl. 17 var bifreið ekið austur Suðurlandsveg og aftan á kyrrstæða bifreið í röð bifreið gegnt Hádegismóum. Ökumaður aftari bifreiðarinnar hafði litið á farsíma sinn skömmu áður en óhappið varð. Ökumaður og farþegi í fremri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Og kl. 18.44 var bifreið ekið á húsveggjarhorn við Ljósaberg 2. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Laugardaginn 18. febrúar kl. 12.26 hljóp drengur, ásamt félaga sínum, út á Birkimel aftan kyrrstæðs strætisvagns á biðstöð, þar sem hann varð fyrir bifreið, sem var ekið norður götuna. Drengurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.

Frá vettvangi í Ártúnsbrekku.