Frá vettvangi á Hafnarfjarðarvegi.
6 Mars 2017 12:07

Í síðustu viku slasaðist tuttugu og einn vegfarandi í þrettán umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 26. febrúar – 4. mars.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 27. febrúar. Kl. 14.51 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Reykjanesbraut gegnt Góu. Ökumaður miðbifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 15.53 varð tíu bifreiða árekstur í undirgöngum Hafnarfjarðarvegar undir Hamraborg. Bifreiðunum var ekið suður veginn. Sterk síðdegissólin blindaði ökumenn rétt áður en komið var inn í göngin og þegar inn var komið áttu ökumennirnir erfitt með að aðlagast breyttum birtuskilyrðum – með framangreindum afleiðingum. Tveir ökumenn og einn farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 17.47 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið á Hjallabraut við Breiðvang. Hann var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 1. mars. Kl. 13.37 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið á bifreiðstæði við Suðurlandsbraut 48. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 14.44 lentu tveir drengir, sem hlupu út á Háholt aftan við kyrrstæðan strætisvagn, fyrir bifreið, sem var ekið úr gagnstæðri átt. Þeir voru fluttir á heilsugæsluna í Mosfellsbæ. Og kl. 16.16 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Breiðholtsbraut til austurs við Selásbraut. Ökumaður öftustu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 2. mars. Kl. 12.28 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Stuðlaháls, og bifreið, sem var ekið austur Lyngháls. Eftir áreksturinn kastaðist önnur bifreiðin á kyrrstæða bifreið við gatnamótin. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 18.19 féll farþegi strætisvagns á leið austur Miklubraut gegnt Gerðahverfi úr sæti sínu þegar vagnstjórinn þurfti að nauðhemla vegna hægfara bifreiðar framundan. Farþeginn var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 3. mars. Kl. 9.12 varð árekstur með hópbifreið, sem var ekið norður Vesturlandsveg í Kollafirði, og bifreiðar, sem var ekið suður Vesturlandsveg og yfir á rangan vegarhelming. Við áreksturinn lentu þrjár aðrar nálægar bifreiðar ýmist fyrir eða utan í þeim fyrrnefndu. Ein þeirra valt út fyrir veginn. Tveir ökumannanna voru fluttir á slysadeild. Og kl. 15.13 varð aftanákeyrsla tveggja bifreiða á Hafnarfjarðarvegi á leið til norðurs á móts við Kópavogslæk. Stuttu síðar varð fjögurra bifreiða aftanákeyrsla á sömu leið skammt aftar. Þrír ökumannanna voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 4. mars. Kl. 10.50 varð árekstur með bifreið, sem var ekið suður Höfðabakka og beygt áleiðis austur Stórhöfða, og bifreið, sem var ekið norður Höfðabakka. Ökumaður og tveir farþegar leituðu sér aðhlynningar á slysadeild eftir óhappið. Og kl. 12.10 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Sæbraut, og bifreið, sem var ekið norður Langholtsveg. Eftir áreksturinn var síðarnefndu bifreiðinni ekið á brott af vettvangi. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.

Frá vettvangi á Hafnarfjarðarvegi.