17 Mars 2017 10:15
Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 5. – 11. mars.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 5. mars. Kl. 12.56 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Breiðholtsbraut og beygt suður Seljaskóga, og bifreið, sem var ekið austur Breiðholtsbraut. Ökumaður og farþegi í fyrrnefndu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Og kl. 20.19 varð árekstur með bifreið, sem var ekið suður Reykjanesbraut, og bifreið, sem var ekið norður Reykjanesbraut og yfir á rangan vegarhelming vestan Brunnhóla. Ökumenn og farþegi í hvorri bifreið voru fluttir á slysadeild.
Miðvikudaginn 8. mars kl. 13.13 var vörubifreið ekið aftan á fólksbifreið á Reykjanesbraut á leið til vesturs austan Bústaðavegar. Ökumaður fólksbifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 9. mars kl. 14.31 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið í bílastæðahúsi Kringlunnar. Hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 10. mars. Kl. 20.14 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Hjallabraut, og bifreið, sem var ekið vestur brautina og beygt til vinstri, áleiðis að húsi nr. 21. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.26 var lögreglubifreið ekið á steinsteyptan stólpa í bifreiðageymslu undir Hamraborg. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.