Frá vettvangi á Reykjanesbraut.
20 Mars 2017 10:43

Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 12. – 18. mars.

Sunnudaginn 12. mars kl. 21.47 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Elliðavatnsveg, og bifreið, sem var ekið austur Vífilsstaðaveg og beygt áleiðis norður Elliðavatnsveg. Ökumaður og farþegi fyrrnefndu bifreiðarinnar voru fluttir á slysadeild.

Miðvikudaginn 15. mars kl. 14.02 hljóp stúlka út á Skálaheiði framundan kyrrstæðum strætisvagni og á hlið bifreiðar, sem var ekið norður götuna. Stúlkan var flutt á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 16. mars. Kl. 12.05 varð árekstur með bifreið, sem var ekið suður Hafnarfjarðarveg, og bifreið, sem var ekið austur Álftanesveg og beygt áleiðis norður Hafnarfjarðarveg. Fyrrnefndi ökumaðurinn mun, skv. frásögn sjónarvotta, hafa verið upptekinn í farsímanum áður en óhappið varð. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 16.06 varð árekstur með sjúkrabifreið, sem var ekið austur Bústaðaveg, og bifreið, sem var ekið norður Háaleitisbraut. Farþegi í sjúkrabifreiðinni var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 17. mars. Kl. 14.20 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Bústaðaveg og beygt áleiðis norður Reykjanesbraut, og bifreið, sem var ekið suður Reykjanesbraut. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 14.21 féll hjólreiðamaður af hjóli sínu á Hverfisgötu við Vitastíg þegar framhjólið festist. Hann var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.

Frá vettvangi á Reykjanesbraut.