Frá vettvangi á Reykjavíkurvegi.
28 Mars 2017 10:04

Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 19. – 25. mars.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 20. mars. Kl. 10.20 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Reykjanesbraut vestan Hamrabergs, og bifreið, sem var ekið vestur brautina, yfir umferðareyju, sem aðskilur akbrautirnar og inn á öfugan vegarhelming. Síðarnefnda bifreiðin hafnaði utan vegar eftir áreksturinn. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 10.52 var bifreið ekið suður Vesturlandsveg á vinstri akrein. Skammt frá Reykjavegi lenti bifreiðin á vegriði með þeim afleiðingum að hún hafnaði utan vegar hægra megin m.v. akstursstefnu. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 21. mars kl. 14.25 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Bústaðaveg og beygt áleiðis suður Háaleitisbraut, og bifreið, sem var ekið austur Bústaðaveg. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 22. mars kl. 17.03 varð árekstur tveggja bifreiða á gatnamótum Háaleitisbrautar og Brekkugerðis. Farþegi í annarri bifreiðinni var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 23. mars kl. 22.12 varð aftanákeyrsla á afrein á Skeiðarvogi til suðurs að Sæbraut. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.

Föstudaginn 24. mars kl. 22.23 varð aftanákeyrsla á Reykjavíkurvegi við Flatahraun. Ökumaður aftari bifreiðarinnar er grunaður um ölvun við akstur. Ökumaður og farþegi í fremri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Laugardaginn 25. mars kl. 18.19 var bifreið ekið utan í hest í Faxabóli í Víðidal. Við það fældist hesturinn og knapinn féll af baki. Hann var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.

Frá vettvangi á Reykjavíkurvegi.