Frá vettvangi við Höfðabakka.
10 Apríl 2017 11:32

Í síðustu viku slösuðust tólf vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 2. – 8. apríl.

Sunnudaginn 2. apríl kl. 9.21 var bifreið ekið norður Höfðabakka og á ljósastaur skammt frá Vatnsveituvegi. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 3. apríl. Kl. 8.23 varð stúlka, sem hjólaði með Hofsvallagötu til norðurs og áleiðis yfir Víðimel, fyrir bifreið, sem var ekið austur Víðimel. Stúlkan var flutt á slysadeild. Og kl. 16.36 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Vesturlandsvegi til norðurs á móts við Vínlandsleið. Ökumaður fremstu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 4. apríl kl. 21.37 varð drengur fyrir bifreið, sem var ekið suður Flúðasel. Drengurinn hafði gengið út á götuna gegnt húsi nr. 10. Hann var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 5. apríl. Kl. 10.15 varð útafakstur og bílvelta við Reykjanesbraut á leið til norðurs við aðrein að Kauptúni. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 10.23 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Breiðholtsbraut að Nýbýlavegi, og bifreið, sem var ekið norður Dalveg. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.08 féll maður á vespu á göngustíg norðan IKEA. Maðurinn er grunaður um ölvunarakstur. Hann var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 6. apríl kl. 5.09 varð aftanákeyrsla á Bæjarhálsi á leið til austurs gegnt Orkuveituhúsinu. Ökumaður aftari bifreiðarinnar, sem er grunaður um að hafa ekið undir áhrifum áfengis, var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 7. apríl kl. 14.23 varð árekstur með strætisvagni, sem var ekið austur Laugarnesveg, og bifreið, sem var ekið norður Laugalæk. Báðir ökumennirnir og farþegi í strætisvagninum voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.

Frá vettvangi við Höfðabakka.