Frá vettvangi á Gullinbrú.
9 Maí 2017 11:27

Í síðustu viku slösuðust þrettán vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 30. apríl – 6. maí.

Þriðjudaginn 2. maí kl. 19.18 var bifreið ekið norður Gullinbrú, utan í vegrið og hafnaði á ljósastaur. Ökumaðurinn, sem hafði verið að fylgjast meira með skjánum á farsímanum sínum en veginum framundan, var fluttur á slysadeild. Hann er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna, auk þess sem hann hafði aldrei öðlast ökuréttindi.

Miðvikudaginn 3. maí kl. 9.33 hjólaði hjólreiðamaður aftan á bifreið á Álfhólsvegi við Bröttubrekku. Hann var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 4. maí. Kl. 13.19 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Miklubraut, og bifreið, sem var ekið norður Grensásveg. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Kl. 18.27 var bifreið ekið austur Móaveg, beygt norður Vættaborgir, í gegnum trégrindverk og á húsvegg við gatnamótin. Ökumaðurinn, 14 ára, var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.08 var bifreið ekið austur Suðurlandsbraut við Reykjaveg, á öfugum vegarhelmingi, og framan á bifreið, sem var ekið vestur brautina. Ökumaður fyrrnefndu er grunaður um ölvun við akstur. Ökumaður og farþegi síðarnefndu bifreiðarinnar voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 5. maí. Kl. 10.11 var bifreið ekið norður Fífuhvammsveg á öfugum vegarhelmingi gegnt Lindakirkju og framan á bifreið, sem var ekið suður götuna. Við áreksturinn valt síðarnefnda bifreiðin. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar hljóp af vettvangi. Og kl. 16.45 hjólaði drengur á hlið bifreiðar, sem var ekið austur Víðivang gegnt húsi nr 7. Hann var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 6. maí. Kl. 11.08 féll hjólreiðamaður á Bauganesi þegar honum og dreng á reiðhjóli lentu saman. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 12.36 féll ökumaður af bifhjóli sínu á Fífuhvammsvegi við Salaveg. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.26 var bifhjóli ekið aftan á bifreið á leið austur Reykjanesbraut við Hamraberg. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á Gullinbrú.