Frá vettvangi við Reykjanesbraut.
15 Maí 2017 10:54

Í síðustu viku slösuðust sex vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 7. – 13. maí.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 7. maí. Kl. 13.14 féll ökumaður, sem var á leið suður Strandgötu, á bifhjóli er bifreið var ekið frá Suðurbraut, áleiðis í veg fyrir hjólið. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 18 féll ökumaður af reiðhjóli á leið eftir hjólastíg austan Borgartúns gegnt N1. Hann var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 8. maí kl. 18.59 var bifreið ekið vestur Reykjanesbraut og út af brautinni að sunnanverðu gegnt álverinu. Svo virðist sem liðið hafi yfir ökumanninn. Hann var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 9. maí kl. 17.55 var bifreið ekið norður Gullinbrú og aftan á kyrrstæða bifreið við Fjallkonuveg. Við áreksturinn kastaðist fremri bifreiðin áfram og lenti aftan á þeirri þriðju. Tveir ökumannanna voru fluttir á slysadeild.

Miðvikudaginn 10. maí kl. 10.58 varð árekstur með tveimur bifreið á bifreiðastæði við Skógarlind 2. Annarri bifreiðinni var ekið til suðurs og hinni til austurs. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi við Reykjanesbraut.