Frá vettvangi við Lindarveg.
22 Maí 2017 19:22

Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 14. – 20. maí.

Sunnudaginn 14. maí kl. 13.18 féll ökumaður fjórhjóls af því er það valt yfir hann á Suðurhellu 6. Hjólið var númerslaust og ökumaðurinn er grunaður um að hafa verið undir áhrifum áfengis við aksturinn. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 15. maí. Kl. 16.06 hljóp vegfarandi á hlið bifreiðar í Ljósuvík gegnt húsi nr. 24. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.12 var bifreið ekið vestur Löngubrekku, yfir á rangan vegarhelming gegnt húsi nr. 30 og á mannlausa bifreið þar í stæði. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 16. maí kl. 16.54 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Barónsstíg, og bifreið, sem var ekið vestur Hverfisgötu. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 17. maí. Kl. 14.16 var bifreið ekið vestur Miklubraut og aftan á aðra austan gatnamóta Háaleitisbrautar. Ökumaður og farþegi í fremri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Og kl. 18.17 féll drengur við á reiðhjóli á Ránargötu gegnt húsi nr. 3. Hann var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 19. maí kl. 22.09 varð árekstur með bifreið, sem var ekið suður Lindarveg, og bifreið, sem var ekið vestur Arnarnesveg. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 20. maí kl. 10.20 féll hjólreiðamaður er hann hjólaði austur Herjólfsbraut og beygði inn á gamla Álftanesveginn. Hann var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi við Lindarveg.